Umboðsmaður Alþingis telur ekki tilefni til að taka til athugunar hvort Bjarni Benediktsson, fyrrverandi fjármálaráðherra og núverandi forsætisráðherra, hafi brotið gegn siðareglum ráðherra með því að birta ekki skýrslu um eignir Íslendinga í aflandsfélögum fyrr en raun bar vitni. Ástæðan er fyrst og fremst að Bjarni hefur viðurkennt að það hafi verið mistök af hans hálfu að birta ekki skýrsluna mun fyrr en gert var.
Umboðsmaður hefur engu að síður unnið að frumkvæðisathugun á upplýsingagjöf stjórnsýslunnar, og ætlar að skila niðurstöðum í síðasta lagi í mars næstkomandi. Hann er að skoða með almennum hætti þær skyldur og heimildir sem sjtórnvöld hafa til að veita almenningi, og þá fjölmiðlum og kjörnum fulltrúum fyrir hönd almennings, aðgang að upplýsingum og gögnum. Hann hefur óskað eftir ýmsum upplýsingum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu um tiltekin atriði vegna þess.
Þetta kemur fram í tveimur bréfum Tryggva Gunnarssonar, umboðsmanns Alþingis, annars vegar til Svandísar Svavarsdóttur, þingflokksformanns VG, sem óskaði eftir því við umboðsmann að hann skoðaði málið, og hins vegar til fjármála- og efnahagsráðuneytisins.
Ætlar að taka út upplýsingagjöf almennt
Umboðsmaður segir hins vegar einnig í bréfinu að hann hafi á undanförnum árum staðnæmst við ýmis tilvik sem hann hafi rekist á í starfi sínu og í frásögnum fjölmiðla þar sem tregðu hefur gætt af hálfu fyrirsvarsmanna í stjórnsýslunni, þar með talið ráðherra, að veita upplýsingar um einstök mál eða gögn sem safnað hefur verið hjá þeim. „Einkum hefur þetta lotið að beiðnum fjölmiðla um aðgang að slíkum gögnum og einnig eru dæmi um að kjörnir fulltrúar bæði á Alþingi og í sveitarstjórnum hafi átt í erfiðleikum með að fá slíkan aðgang.“ Hann segir að enn sé þörf á því að umboðsmaður Alþingis dragi fram hvaða skyldur hvíli á stjórnvöldum þegar kemur að upplýsingagjöf, og að umboðsmaður lýsi viðhorfi sínu til þess hvernig eigi að túlka ákæði laga og reglna sem fjalla um þessi mál. „Þá ekki síst með tilliti til þess fyrirvars almannahagsmuna sem stjórnvöld fara með og þátttöku almennings í umræðu um þau mál og stefnumörkun.“
Umboðsmaður Alþingis hefur óskað eftir því að fjármála- og efnahagsráðuneytið afhendi honum afrit af skipunarbréfi starfshópsins um eignir Íslendinga í aflandsfélögum, skilabréfi hópsins eða öðrum gögnum sem segja til um hvenær skýrslunni var skilað til ráðuneytisins og hún komin í birtingarhæft form. Hann óskar jafnframt eftir upplýsingum um það hvort skýrslan hafi verið kynnt í ríkisstjórn, og þá hvenær. Hann óskar einnig eftir afritum af erindum fjölmiðla vegna skýrslunnar og svörum við þeim erindum. Að lokum óskar umboðsmaður eftir upplýsingum um það hvað réði því að skýrslan var birt þann 6. janúar síðastliðinn.