Vigdís Ósk Häsler Sveinsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarmaður Jóns Gunnarssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Vigdís Ósk er lögfræðingur og hefur starfað sem lögfræðingur Sambands íslenskra sveitarfélaga undanfarið.
Vigdís Ósk lauk BA prófi í lögfræði frá Háskólanum á Akureyri árið 2006 og meistaraprófi 2008. Hún varð héraðsdómslögmaður árið 2009 og lauk LLM gráðu í alþjóðlegum refsirétti frá háskólanum í Sussex í Bretlandi.
Hún hefur starfað hjá Héraðsdómi Norðurlands eystra og hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra. Hún hefur einnig starfað sem lögmaður hjá Lögmönnum Höfðabakka, og hefur svo verið lögfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga frá árinu 2015.
Vigdís Ósk hefur setið í stjórn Íslenskrar ættleiðingar, og í stjórnum evrópsku og norrænu ættleiðingarsamtakanna. Hún hefur setið í ritstjórn tímaritsins Lögfræðings og í stjórn Félags kvenna í lögmennsku. Hún hefur setið í kjörstjórn í Garðabæ bæði fyrir alþingis- og forsetakosningar.