Bjarni Benediktsson forsætisráðherra mun ekki koma á fund efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis til þess að ræða um skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum. Nefndarmenn höfðu óskað eftir því að Bjarni kæmi á fundinn til þess að sitja fyrir svörum um skýrsluna, sem hann lét gera, og um það hvers vegna hún var ekki birt fyrr en fyrr í þessum mánuði þegar hún var tilbúin í september.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Pírötum. Þar kemur fram að Bjarni telji sig ekki hafa meira um málið að segja á þessu stigi, enda hafi hann tjáð sig um málið opinberlega. Bjarni hafi lýst sig reiðubúinn til þess að taka þátt í umræðum um málið á Alþingi eftir að það kemur saman á ný í næstu viku.
Í fréttatilkynningunni frá Pírötum er haft eftir Smára McCarthy, fulltrúa Pírata í nefndinni, að honum finnist algjörlega ótækt að forsætisráðherra vilji ekki gera grein fyrir verkum sínum fyrir nefndinni. „Með slíkri neitun vegur hann að eftirlitshlutverki Alþingis. Það að hafa veitt fjölmiðlum svör er allt annað en að hafa veitt þinginu viðunandi svör.“
Upphaflega hafi átt að halda fundinn síðastliðinn fimmtudag en því var frestað meðal annars vegna þess að óskað var eftir því að fundurinn yrði sendur út í beinni útsendingu á vef Alþingis. Það síðasta sem nefndarmenn höfðu heyrt í gær var að fundurinn yrði haldinn öðru hvoru megin við helgina, sagði Katrín Jakobsdóttir formaður VG við Kjarnann í gær. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagðist þá gera ráð fyrir að fundurinn verði haldinn í vikunni, en ekkert fundarboð hafi borist.
Búið var að staðfesta að Bjarni Benediktsson, fyrrverandi fjármálaráðherra og núverandi forsætisráðherra, gæti mætt á fundinn og svarað fyrir skýrsluna þrátt fyrir að hann sé ekki lengur fjármálaráðherra. Logi sagði við Kjarnann í gær að hann hafi skilið það sem svo að Bjarni myndi mæta fyrir nefndina. Fundurinn yrði tvíþættur þegar hann verður haldinn, annars vegar myndi Bjarni mæta og svara spurningum um innihald skýrslunnar og aðdraganda birtingar hennar, og hins vegar muni skýrsluhöfundar mæta fyrir nefndina.