Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 15 prósent á árinu 2016, samkvæmt nýjum tölum um vísitölu íbúðaverðs, sem Þjóðskrá tekur saman mánaðarlega.
Vísitalan hækkaði um 1,5 prósent milli nóvember og desember í fyrra, en það eru nýjustu tölurnar. Síðastliðna þrjá mánuði hækkaði vísitalan um 4,9 prósent, á síðasta hálfa árinu hefur hún hækkað um 8,5 prósent og síðastliðna tólf mánuði hefur hækkunin verið 15 prósent.
Fjallað er um þetta í hagsjá Landsbankans og þar kemur fram að hækkanirnar síðustu tólf mánuði eru mjög miklar og þarf að fara aftur til ársins 2007 til að sjá álíka tölur.
Vegna þess að verðbólga hefur verið lág og stöðug síðustu misseri hefur raunverð fasteigna hækkað mun meira en annars væri, og raunverð hefur hækkað meira en nafnverð. Raunverð fasteigna hækkaði um 11,2 prósent milli áranna 2015 og 2016, en nafnverðið um 11%.
Viðskipti með fasteignir héldu áfram að aukast á síðasta ári, en þó var hún miklu minni í fyrra en árið áður, 8,3% miðað við 17,5% árið 2015. Hækkun fasteignaverð hefur verið nánast stöðug frá árinu 2010, jafnari en oft áður. Hækkunarferilinn á fasteignum á höfuðborgarsvæðinu er orðinn lengri en oft áður, og það sama gildir um stærri sveitarfélög annars staðar á landinu. „Það er ljóst að framboð húsnæðis, einkum fjölbýlis, hefur í langan tíma verið minna en markaðurinn getur tekið við og er það mikilvæg ástæða mikilla verðhækkana. Nú hillir undir að nýjum íbúðum fjölgi á næstu misserum. Verð nýrra íbúða er væntanlega hærra nú en gengur og gerist um eldri íbúðir og verður svo eitthvað áfram,“ segir í hagsjánni.
Hins vegar hafi byggingarkostnaður hækkað mun minna á síðustu árum en íbúðaverð og því ætti að skapast svigrúm til að nýjar íbúðir dragi íbúðaverðið niður á við.
Húsnæðismarkaðurinn að þorna upp
Líkt og Kjarninn greindi frá í gær er framboð húsnæðis að þorna upp. Á fundi sem hagdeild Íbúðalánasjóðs hélt í síðustu viku var meðal annars fjallað um þörfina fyrir nýtt húsnæði. Þar sagði Sigurður Jón Björnsson, framkvæmdastjóri fjárstýringar Íbúðalánasjóðs, að það væru skýr merki um að framboð eigna á húsnæðismarkaði væru við það að þorna upp. Eignir seljist nú oft á sýningardegi sem sé óeðlilegt ástand. Sigurður sagði enn fremur að miðað við fjölda íbúða í landinu, og að níu til tíu prósent þeirra skipti um hendur á ári og fjögurra mánaða veltuhraða, þá ættu þrjú þúsund íbúðir að vera til sölu í dag. Talan sé hins vegar nær eitt þúsund. Þetta geti verið merki um ofhitun og Sigurður sagði að almenningur ætti að stíga varlega til jarðar.