Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir það óásættanlegt að Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra, telji það nægjanlegt að skýra af hverju hann birti ekki skýrslu starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum fyrr en þremur mánuðum eftir að hann fékk kynningu á henni, í fjölmiðlum. Katrín segir að neitun Bjarna um að svara fyrir skil á skýrslunni fyrir efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis sýni að samskipti nýrrar ríkisstjórnar við þingið fari illa af stað. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu sem Katrín birti á Facebook.
Katrín bað um fund í nefndinni þann 7. janúar síðastliðinn, daginn eftir að skýrslan var birt. „Þegar í ljós kom að sú skýrsla hafði ekki verið birt í haust þegar hún var tilbúin var óskað eftir því að þáverandi fjármálaráðherra kæmi fyrir nefndina. Síðan þá hefur verið reynt að finna tíma fyrir fundinn sem hentaði ráðherra. Í gærkvöldi berst svo bréf um að ráðherra muni ekki mæta fyrir nefndina þar sem hann hafi þegar skýrt sitt mál fyrir fjölmiðlum. Þarna er ólíku saman að jafna og óásættanlegt að ráðherrar telji það nægjanlegt að skýra slík mál fyrir fjölmiðlum. Samskipti nýrrar ríkisstjórnar við þingið fara illa af stað.“
Greint var frá því í fréttatilkynningu frá Pírötum í gær að Bjarni muni ekki koma á fund efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis til þess að ræða um skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum. Þar kom fram að Bjarni telji sig ekki hafa meira um málið að segja á þessu stigi, enda hafi hann tjáð sig um málið opinberlega. Bjarni hafi lýst sig reiðubúinn til þess að taka þátt í umræðum um málið á Alþingi eftir að það kemur saman á ný í næstu viku.
Í fréttatilkynningunni frá Pírötum var haft eftir Smára McCarthy, fulltrúa Pírata í nefndinni, að honum finnist algjörlega ótækt að forsætisráðherra vilji ekki gera grein fyrir verkum sínum fyrir nefndinni. „Með slíkri neitun vegur hann að eftirlitshlutverki Alþingis. Það að hafa veitt fjölmiðlum svör er allt annað en að hafa veitt þinginu viðunandi svör.“