Laufey Rún Ketilsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarmaður Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra. Laufey hefur þegar hafið störf. Frá þessu er greint á vef innanríkisráðuneytisins.
Laufey Rún er 29 ára lögfræðingur að mennt, með BA-próf í lögfræði frá Háskóla Íslands og MA-próf frá Háskólanum í Reykjavík.
Hún hefur starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu undanfarin tvö ár en starfaði þar áður hjá Juris lögmannsstofu, innheimtuþjónustunni Gjaldskilum, regluvörslu hjá Arion banka og í viðskiptaumsjón Kaupþings.
Laufey Rún hefur gengt trúnaðarstörfum hjá Sjálfstæðisflokknum og er formaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna (SUS) og situr í miðstjórn flokksins. Hún var framkvæmdastjóri SUS árið 2015 og hefur átt sæti í stjórn SUS síðan 2010 og þar áður sat hún í stjórn Heimdallar, félags ungra Sjálfstæðismanna í Reykjavík.