Frekari rannsókna er þörf á aflandseignum Íslendinga. Þá verður að tryggja að hér verði byggðir upp nægjanlega öflugir innviðir til að fylgjast betur með þessum málum, ekki síst þegar losað verður endanlega um fjármagnshöft.
Þetta segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna og fulltrúi flokksins í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis, en í morgun fór fram fundur í nefndinni. Katrín hafði óskað eftir fundinum fyrir hálfum mánuði síðan, eða þegar skýrsla um aflandseignir Íslendinga var gerð opinber.
Hér má lesa ítarlega um niðurstöður skýrslunnar.
Upphaflega stóð til að Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og fyrrverandi fjármálaráðherra, kæmi fyrir nefndina til að ræða skýrsluna og þá töf sem varð á birtingu hennar. Bjarni sagði hins vegar nefndarmönnum fyrr í vikunni að hann myndi ekki mæta, enda hefði hann talað um málið við fjölmiðla og hefði engu við að bæta. Hann er engu að síður tilbúinn til að ræða málið við þingið þegar það kemur saman eftir helgi. Við þetta voru nefndarmenn minnihlutans ósáttir, en úr varð að fundurinn fór fram í morgun.
Á fundinum kom meðal annars fram að Íslendingar hafi staðið Norðurlöndunum langt að baki þegar kom að löggjöf og eftirliti í kringum fjármagnsflutninga og eignaumsýslu á aflandssvæðum fyrir hrun. „Umfang þessarar aflandsvæðingar var mun meira hér en annars staðar á Norðurlöndum þó að skattaumhverfi þar hafi síst verið hagkvæmara en hér. Miklu munaði þar um CFC-reglurnar svokölluðu sem voru innleiddar mun fyrr á Norðurlöndunum en hér – en hér á landi voru þær innleiddar árið 2011,“ segir Katrín á Facebook síðu sinni.
Einnig hafi komið fram að erfitt hafi reynst að nálgast fullnægjandi gögn og skráningar um þessi mál á árunum fyrir hrun, og það sé ekki síst ástæða þess að byggja verði upp innviði til að fylgjast betur með þessum málum.