Hlutfall þeirra sem eru að kaupa sér íbúðir í fyrsta skipti hefur aukist talsvert á undanförnum árum, samkvæmt tölum sem Þjóðskrá Íslands tekur saman. Tölurnar hafa verið teknar saman frá árinu 2008 og á þeim tíma voru fyrstu kaup yfirleitt lítill hluti viðskipta. Það ár voru innan við 10% fasteignaviðskipta á höfuðborgarsvæðinu hjá fyrstu kaupendum. Árið 2016 var hlutfall fyrstu kaupenda hins vegar 23%.
Þetta kemur fram í pistli hagfræðingsins Ara Skúlasonar hjá Landsbankanum. Sömu sögu er að segja á öðrum landssvæðum og þróunin er alls staðar sú sama. „Fyrstu kaupum hefur þannig ekki einungis fjölgað, heldur hefur þeim fjölgað hlutfallslega mikið,“ segir Ari meðal annars.
„Það er því ljóst að ungt fólk hefur verið að eignast sínar fyrstu fasteignir á síðustu árum og virkni þess á markaðnum hefur aukist töluvert með árunum. Því miður eru tölur um fyrstu kaup ekki til nema frá árinu 2008 og því ekki hægt að gera samanburð við önnur tímabil. Þessi niðurstaða stangast nokkuð á við þá skoðun að ungt fólk geti ekki eignast fasteignir og vekur líka upp margar spurningar,“ skrifar Ari.
Það megi til dæmis spyrja hvort ungt fólk geti almennt keypt íbúðir hjálparlaust eða hvort það fái stuðning frá foreldrum eða öðrum ættingum. Þá megi í framhaldi af því spyrja hvort það sé fyrst og fremst ungt fólk úr betur stæðum fjölskyldum sem á möguleika á að kaupa húsnæði. „Spurningarnar eru fleiri en margar þeirra snúast um hvort núverandi fyrirkomulag á íbúðalánamarkaði sé að auka aðstöðumun milli hópa.“