Samtals eru 25,3 prósent landsmanna ánægðir með ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, sem mynduð var fyrr í þessum mánuði. Rúmur fjórðungur, eða 27,7 prósent aðspurðra, segist í meðallagi ánægður með ríkisstjórnina en 47 prósent landsmanna eru óánægðir. Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu á viðhorfi til ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar.
Þar kemur einnig fram að karlar eru mun ánægðari með ríkisstjórnina en konur og tekjuhærri ánægðari en tekjulægri. Athygli vekur að ríkisstjórnin nýtur mikillar hylli hjá kjósendur Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar (77-79 prósent þeirra eru ánægðir) en lítils stuðnings hjá kjósendum Bjartrar framtíðar (31 prósent segjast ánægðir). Af kjósendum annarra flokka eru kjósendur Framsóknarflokksins ánægðastir með ríkisstjórnina, eða 13 próent. Innan við eitt prósent kjósenda Pírata, Samfylkingar og Vinstri grænna eru ánægðir með stjórnina.
Könnun Maskínu fór fram 21-23. janúar. Svarendur í könnuninni voru 810 og komu úr panelhóp sem svarar spurningum á netinu. Hópurinn er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar af landinu og á aldrinum 18-75 ára.
Flokkarnir þrír sem mynda nýju ríkisstjórnina eru með minnsta mögulega meirihluta á þingi, 32 þingmenn. Þeir fengu samtals 46,7 prósent greiddra atkvæða í síðustu Alþingiskosningum.