Ráðuneytum í ríkisstjórn Íslands verður fjölgað úr átta í níu með þeim hætti að innanríkisráðuneytinu verður formlega skipt upp í tvö ráðuneyti með tveimur aðskildum ráðuneytisstjórum. Starfshópur hefur verið settur á fót sem á að vinna að framkvæmdinni og á vinna hans ekki að taka langan tíma. Þetta segir Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra við Morgunblaðið. Starfsmönnum ráðuneytisins var greint frá ráðagerðinni á fundi í lok síðustu viku. Þar starfa á áttunda tug manna.
Athygli vakti að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, valdi sex ráðherra úr þingflokki Sjálfstæðisflokks til að sitja í ríkisstjórn sinni, en búist hafði verið við að þeir yrðu fimm talsins. Sigríður var gerð að ráðherra dómsmála í innanríkisráðuneytinu en Jón Gunnarsson gerður að ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála í sama ráðuneyti. Samhliða voru byggðarmál flutt yfir í ráðuneyti Jóns frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.
Innanríkisráðuneytið varð til við breytingar á skipan stjórnarráðs Íslands í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Það tók til starfa 1. janúar 2011.