„Þetta er bara að versna og ég kvíði fyrir mánaðamótunum,“ segir Arnar G. Hjaltalín, formaður stéttarfélagsins Drífanda í Vestmannaeyjum, í viðtali við Morgunblaðið í dag um þá alvarlegu stöðu sem fiskvinnslufólk er í vegna vinnslustöðvunar í verkfalli sjómanna.
Eins og fram kom í fréttum í gær þá slitnaði upp úr viðræðum
samninganefnda sjómanna og útvegsmanna.
Boðað hafði verið til
sáttafundar upp úr hádegi en viðræðunum var slitið eftir rúmlega
tveggja tíma fund. Ekki hefur verið boðað til fundar á nýjan leik og lausn á deilunni er ekki í sjónmáli.
Í Vestmannaeyjum eru nú tæplega
300 manns sem starfa við fiskvinnslu
komnir á atvinnuleysisbætur
og hefur þeim fjölgað eftir því sem
liðið hefur á mánuðinn, að því er fram kemur í Morgunblaðinu.
Arnar segir að einnig sé hópur fólks eða nálægt 20 manns sem ekki eigi rétt á bótum og auk þess þekki hann dæmi um einstaklinga sem skrái sig ekki atvinnulausa því þeir vilji ekki þiggja bætur. ,,Tvö fyrirtæki hér hafa lofað því að þeim sem hjá þeim vinna en eiga ekki rétt á bótum verði bætt það upp en fólk er engu að síður að tapa alveg rosalega miklu vegna þessa,“ segir hann við Morgunblaðið. „Fólk tekur þessu með jafnaðargeði en eftir því sem lengra líður verður ástandið verra,“ segir hann í viðtalinu við Morgunblaðið.
Í seinustu viku
fjölgaði fiskvinnslufólki á atvinnuleysisskrá
um hundrað og var heildarfjöldi
umsókna um skráningu á atvinnuleysisskrána
kominn í 1.440, að því er segir í blaðinu.
Starfsfólk í fiskvinnslu, sem sagt
hefur verið upp og hefur sótt um
skráningu á atvinnuleysisskrá,
skiptist þannig að konur eru heldur
fleiri en karlar eða 737 talsins en
karlarnir eru 703.
Í yfirlýsingu frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi kemur fram að það séu sjómenn sem séu að víkjast undan ábyrgð, með því að gangi frá samningsborði. Þessu vísar samninganefnd sjómanna á bug og segir að nú sé fullreynt að sinni að ná samningum. Sjómenn muni ekki láta kúga sig.