Bjarni Benediktsson forsætisráðherra mun flytja sína fyrstu stefnuræðu í kvöld klukkan 19:30. Í kjölfarið fara fram umræður um hana þar sem þrír fulltrúar allra flokka taka þátt. Mesta athygli vekur að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, verður einn ræðumanna Framsóknarflokksins, en samband hans við flokksforystuna hefur verið við frostmark undanfarna mánuði í kjölfar þess að hann tapaði formannsslag gegn Sigurði Inga Jóhannssyni. Í útvarpsviðtali um miðjan desember sagði Sigurður Ingi að það hæti verið betra á milli hans og Sigmundar Davíðs og að það væri viðvarandi verkefni að bæta samskipti við Sigmund Davíð innan þingflokks Framsóknarflokksins.
Auk Bjarna munu Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Valgerður Gunnarsdóttir tala fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins. Hjá Viðreisn talar Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, Hanna Katrín Friðriksson og Jóna Sólveig Elínardóttir. Hjá Bjartri framtíð talar allir þingmenn flokksins nema einn. Þeir eru Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra, Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Theodóra Þorsteinsdóttir.
Fyrir Vinstri græn munu Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksins, Ari Trausti Guðmundsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir tala. Hjá Framsókn mun Lilja Alfreðsdóttir tala til viðbótar við þá Sigurð Inga og Sigmund Davíð. Ræðumenn Samfylkingar eru allir þingmenn hennar: Logi Már Einarsson, formaður flokksins, Oddný G. Harðardóttir og Guðjón S. Brjánsson.
Fyrir Pírata tala Ásta Guðrún Helgadóttir, Björn Leví Gunnarsson og Viktor Orri Valgarðsson.