Samfylkingin skoðar það mjög alvarlega að leggja fram þingsályktunartillögu á komandi þingi um að fram skuli fara þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna Íslands um aðild að Evrópusambandinu (ESB). Þetta segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, við DV.
Logi segir hugsanlegt að framlagning slíkrar tillögu sé til þess að knýja þingmenn stjórnarflokkanna til að sýna hug sinn gagnvart málinu. „Þetta mál verður samt tekið á dagskrá og örugglega með öðrum hætti en um er rætt í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Þetta er mál sem allir flokkar ættu auðvitað að vera sammála um. Það voru allir flokkar búnir að lofa því meira og minna fyrir kosningar að þjóðin ætti að fá að ráða þessu. Það er langheiðarlegast.“
Tveir af þeim þremur flokkum sem sitja nú í ríkisstjórn – Viðreisn og Björt framtíð – eru fylgjandi því að Ísland gangi í Evrópusambandið og lögðu mikla áherslu á að kosið yrði um aðildarviðræðurnar í aðdraganda síðustu kosninga. Viðreisn var raunar stofnuð upp úr óánægju innan Sjálfstæðisflokksins með þá ákvörðun ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem Sjálfstæðisflokkurinn sat í, að draga umsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka í febrúar 2014. Evrópusinnaðir sjálfstæðismenn töldu Bjarna Benediktsson, formann flokksins, hafa svikið kosningaloforð með því að draga umsóknina til baka án þess að farið hefði fram þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort það ætti að gera það. Bjarni sagði sjálfur að það hefði verið „pólitískur ómöguleiki“ fyrir ríkisstjórnina að halda umsóknarferlinu áfram í ljósi þess að báðir þáverandi stjórnarflokka hafi verið andvígir aðild.
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar eru Evrópumálin afgreidd með þeim hætti að Alþingi muni taka afstöðu til þess hvort kosið verði eður ei um áframhaldandi viðræður. Þar segir enn fremur að „stjórnarflokkarnir [eru] sammála um að greiða skuli atkvæði um málið og leiða það til lykta á Alþingi undir lok kjörtímabilsins. Stjórnarflokkarnir kunna að hafa ólíka afstöðu til málsins og virða það hver við annan.“
Það er því staðfest í stjórnarsáttmála að allir flokkarnir þrír eru sammála um að geyma atkvæðagreiðslu um þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður að Evrópusambandinu til loka kjörtímabilsins, jafnvel þótt hún myndi verða lögð fram á fyrsta starfsdegi Alþingis þann 24. janúar.
Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, sagði í útvarpsþættinum Sprengisandi fyrir rúmri viku síðan að hann reikni ekki með að styðja þingsályktunartillögu sem yrði lögð fram fyrr, því hann líti svo á að hann hafi skuldbundið sig til að styðja ríkisstjórnarsamstarfið og þá málamiðlun sem náð var.
Nýja ríkisstjórnin, sem var mynduð fyrr í þessum mánuði, fékk sína fyrstu ánægjumælingu í könnun sem Maskína birti í gær. Þar kom í ljós að um 25 prósent aðspurðra er ánægður með hana og einungis um þriðji hver kjósandi Bjartrar framtíðar er ánægður.