Bjarni Benediktsson forsætisráðherra spyr hvort það geti verið að Píratar hafi ekki geta unnt Framsóknarflokknum að leiða efnahags- og viðskiptanefnd og hafi „frekar viljað kasta öllu frá sér til að koma þeirri sögu á kreik að stjórnin hafi ekkert boðið?“. Þess í stað hafi ekki náðst samkomulag um að stjórnarandstaðan fengi formennsku í þremur af átta fastanefndum Alþingis, líkt og stjórnarflokkarnir þrír hefðu samþykkt. Stjórnarflokkarnir munu að öllum líkindum verða með formenn í öllum fastanefndunum átta.
Bjarni segir í stöðuuppfærslu á Facebook að komið hafi fram eindregin vilji stjórnarandstöðu um að fá formennsku í þremur nefndum, í stað tveggja eins og á síðasta kjörtímabili. Þá hafði stjórnarandstaðan formennsku í velferðarnefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og stóð sú formennska áfram til boða. Til stóð að tveir stærstu stjórnarandstöðuflokkarnir, Vinstri græn og Píratar, myndu fá formennsku í þeim nefndum. Bjarni segir að kæmi til þess að samið yrði um þriðju formennskuna þá yrði það til að tryggja að Framsóknarflokkurinn færi fyrir einni nefnd, enda væri hann þriðji stærsti flokkurinn. „Þessi samtöl þróuðust með þeim hætti að Framsóknarflokkurinn sóttist eftir eftir formennsku í efnahags- og viðskiptanefnd. Af hálfu stjórnarflokkanna var það samþykkt. Með þessu höfðu stjórnarflokkarnir fallist á að fela stjórnarandstöðu forystu í fleiri nefndum en dæmi eru um.“
Fyrr í dag voru sagðar af því fréttir að stjórnarandstaðan hafi sagt stjórnarflokkanna hafa viljað skipta sér að því hvaða einstaklingar myndu stýra nefndum sem hún fengi formennsku í. Það vildi stjórnarandstaðan ekki sætta sig við og því muni hún hvorki taka við formennsku né varaformennsku í nefndum. Bjarni segir að þar sé stjórnarandstaðan að snúa öllu á haust á þann veg að þar sem samkomulagið hafi snúist um að fallast á bón Framsóknarflokksins um forystu í efnahags- og viðskiptanefnd þá hafi stjórnarflokkarnir viljað hafa áhrif á val stjórnarandstöðunnar. „Því er slegið upp sem staðreynd í fyrirsögn fréttar á RÚV. Það væri nær að skrifa frétt um að stjórnarandstaðan hafi gefið frá sér formennsku í þremur nefndum því hún gat ekki komið sér saman um hvað ætti að falla í hvers hlut. Getur verið að Píratar hafi ekki getað unnt Framsóknarflokknum þess að leiða mikilvæga nefnd og hafi frekar viljað kasta öllu frá sér til að koma þeirri sögu á kreik að stjórnin hafi ekkert boðið?“