„Það er skemmst frá því að segja að það er ekkert að frétt, og sátt er ekki í sjónmáli,“ sagði Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, í samtali við Kjarnann nú í kvöld, aðspurð um gang mála í kjaraviðræðum sjómanna og útgerða. Verkfall hefur nú staðið yfir frá því 14. desember og er sátt ekki í sjónmáli eins og mál standa nú. Viðræðum hefur verið slitið, og er enginn fundur áformaður eins og mál standa nú.
Áætlað tap í aflaverðmæti fyrir sjávarútveginn, vegna verkfallsins, hefur verið áætlað allt að 700 milljónum á dag og því er mikið í húfi fyrir þjóðarbúið. Fiskvinnslufólk hefur víða skráð sig á atvinnuleysisskrá vegna vinnslustopps og er staðan sérstakleg alvarlega í sveitarfélögum þar sem sjávarútvegur er hryggjarstykkið í atvinnulífinu.
Í pistli sem Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, skrifar inn á vefinn 200 mílur kemur fram að sjómenn verði af átta milljörðum árlega vegna verðmunar á makríl, miðað við verðið sem fæst t.d. í Noregi. „En hver skildi verðmunurinn hafa verið fyrir síðustu makrílvertíð, það er að segja fyrir árið 2016? Jú, fram hefur komið í fréttum að í gegnum sölukerfi norska síldarsamlagsins hafi farið 133 þúsund tonn af makríl og meðalverðið hafi verið 10,23 krónur norskar á kíló, eða rúmar 144 krónur íslenskar. En hvað skyldi meðalverðið hafa verið á Íslandi á árinu 2016? Samkvæmt Hagstofunni veiddust rúmlega 170 þúsund tonn og aflaverðmætið var 10,9 milljarðar og meðalverðið því 63,9 íslenskar krónur. Takið eftir að í Noregi var á síðasta ári verið að greiða rúmum 80 krónum hærra verð fyrir kílóið að meðaltali fyrir makríl en á Íslandi eða sem nemur 125%. Hugsið ykkur, íslenskir sjómenn fá 125% minna verð fyrir makríl en fæst fyrir hann í Noregi,“ segir Vilhjálmur í pistli sínum.
Heiðrún Lind segist vonast til þess að sáttin í deilunni færist nær. Það sé vilji allra að ná sátt og koma starfsemi af stað. Þegar sé farið að reyna mjög á sölusambönd við viðskiptavini erlendis. Ef deilan dragist enn meira á langinn þá sé hætta á að skaðinn verði varanlegur.