Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna þriggja mælist 38,4 prósent. Stuðningur við ríkisstjórnina mælist enn lægri, eða 35 prósent. Til samanburðar mældist stuðningur við ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur 56,1 prósent í fyrstu mælingu eftir að hún tók við í febrúar 2009 og stuðningur við ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar 59,9 prósent þegar hann var fyrst mældur í byrjun júní 2013. Þetta kemur fram í nýrri könnun frá MMR.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærsti flokkur landsins með 24,6 prósent fylgi og dalar á milli kannanna. Vinstri græn mælast með 22 prósent og Píratar með 13,6 prósent, sem er minna en báðir flokkar höfðu í síðustu könnun MMR. Framsóknarflokkurinn bætir við sig og mælist nú með 12,5 prósent fylgi. Það gerir Samfylkingin líka og mælist nú með sjö prósent fylgi. Viðreisn heldur áfram að mælast á svipuðum slóðum og í undanförnum könnunum – með 6,8 prósent fylgi— og er töluvert frá kjörfylgi sínu. Björt framtíð virðist vera eini stjórnarflokkurinn sem græðir á stjórnarsamstarfinu í könnunum og fylgi flokksins mælist nú meira en Viðreisnar, eða sjö prósent. Munurinn er þó vel innan skekkjumarka. Athygli vekur að ef kosið yrði í dag myndi flokkur fólksins fá 3,6 prósent atkvæða.
Þótt stuðningur við ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar mælist mun minni en stuðningur við síðustu tvær ríkisstjórnir þegar þær voru að hefja stjórnartíð sína þá er hann fjarri því að ná lágpunktum þeirra ríkisstjórna þegar kemur að stuðningi. Vinstristjórninn mældist til að mynda með einungis 22,8 prósent stuðning í október 2010 og ríkisstjórn Sigmundar Davíðs mældist með 26 prósent stuðning í sömu viku og Wintris-málið kom upp í fyrra.
Könnunin var framkvæmd dagana 12. til 26. janúar 2017 og var heildarfjöldi svarenda 910 einstaklingar, 18 ára og eldri. Allar niðurstöður hafa einhver vikmörk sem miðað við 1000 svarendur geta verið allt að +/-3,1 prósent.