Prófkjörsbarátta Páls Magnússonar, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, kostaði ríflega 3,4 milljónir króna. Þetta kemur fram í uppgjöri sem Páll hefur skilað Ríkisendurskoðun, en hann er fimmtándi frambjóðandi flokksins sem skilar slíku uppgjöri til Ríkisendurskoðunar.
Framboð Páls var það dýrasta af þeim sem skilað hafa upplýsingum, en næst á eftir honum voru Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson, sem bæði vörðu um 2,9 milljónum króna í sín framboð.
Páll lagði sjálfur fram tæplega 570 þúsund krónur í framboðið, og hann fékk framlög frá tíu einstaklingum upp á 640 þúsund til viðbótar. Þá fékk hann framlög frá tólf fyrirtækjum upp á 2.225.000 krónur. Hæsta framlagið kom frá Brekkuhúsum ehf., 400 þúsund, en önnur framlög voru frá Dalborg, Endurskoðun og ráðgjöf, Fastus, Faxa, Framherja, Gunnari Leifssyni ehf., ISAM, Ísfélagi Vestmannaeyja, Siglu, Skipalyftunni og Vinnslustöðinni.
Níu vörðu yfir milljón
Níu frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins vörðu yfir milljón í prófkjörsbaráttuna í haust, samkvæmt uppgjörunum til Ríkisendurskoðunar. Sem fyrr segir vörðu þau Páll, Áslaug Arna og Guðlaugur Þór mestu. Næstur þar á eftir kom Ásmundur Friðriksson, sem lenti í öðru sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Hann fékk framlög upp á tæplega 2,7 milljónir króna og framboð hans kostaði nánast nákvæmlega það mikið. Hann fékk fjárframlög frá sex einstaklingum upp á 265 þúsund krónur og svo 2,675 milljónir frá 31 fyrirtæki.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, var felld í prófkjörinu þar og endaði í fjórða sæti, sem hún þáði ekki. Hún varði tæpum tveimur milljónum króna í framboð sitt, fékk 585 þúsund samtals frá fimm einstaklingum og 1,4 milljónir frá þrettán fyrirtækjum og lögaðilum.
Óli Björn Kárason lenti í þriðja sæti í Suðvesturkjördæmi. Framboð hans kostaði 1,5 milljónir króna. 600 þúsund komu frá þremur fyrirtækjum, 30 þúsund frá tveimur einstaklingum og stærstan hluta, 913 þúsund krónur, komu frá honum sjálfum.
Sigríður Andersen lenti í fimmta sæti í sameiginlega prófkjörinu í Reykjavík. Hennar framboð kostaði 1,55 milljónir króna. Hún tiltekur ekki hversu margir einstaklingar gáfu henni framlög, en þau námu 693 þúsund krónum. Fjögur fyrirtæki gáfu henni samtals 850 þúsund krónur, og hún sjálf lagði fram tæplega 11 þúsund krónur.
Jón Gunnarsson lenti í öðru sæti í Suðvesturkjördæmi og framboð hans kostaði 1,375 milljónir króna. Eigin framlög hans námu 75 þúsund krónum, hann fékk engin framlög frá einstaklingum en 1,3 milljónir króna frá sex fyrirtækjum og lögaðilum.
Hildur Sverrisdóttir er fyrsti varaþingmaður flokksins í Reykjavík suður, en hún lenti í sjöunda sæti í sameiginlega prófkjörinu í borginni. Framboð hennar kostaði 1,2 milljónir króna en hún fékk um hundrað þúsund krónum hærri framlög. Sjálf lagði hún fram 300 þúsund krónur og fékk 306 þúsund frá níu einstaklingum. Hún fékk 700 þúsund frá fimm fyrirtækjum.
Teitur Björn Einarsson lenti í þriðja sæti í Norðvesturkjördæmi, og framboð hans kostaði 984 þúsund krónur. Tólf einstaklingar gáfu honum 134 þúsund krónur og fjögur fyrirtæki samtals 850 þúsund krónur.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir lenti í öðru sæti í Norðvesturkjördæmi, og hennar framboð kostaði 914 þúsund krónur. Hún fékk 264 þúsund krónur frá 17 einstaklingum og 650 þúsund krónur frá sex fyrirtækjum.
Bryndís Haraldsdóttir lenti í fimmta sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi en var færð upp í annað sætið. Hún fékk framlög upp á 910 þúsund krónur og framboð hennar kostaði jafnmikið. Hún lagði sjálf fram 130 þúsund krónur, fékk 380 þúsund krónur frá fjórum einstaklingum og 400 þúsund krónur frá þremur fyrirtækjum.
Elín Hirst hlaut ekki brautargengi í prófkjörinu í Suðvesturkjördæmi þrátt fyrir að hafa setið á þingi á síðasta kjörtímabili. Framboð hennar kostaði 979 þúsund krónur, þar af lagði hún sjálf fram tæplega 300 þúsund krónur. Hún fékk framlag frá einum einstaklingi upp á 50 þúsund krónur og 630 þúsund frá níu fyrirtækjum og lögaðilum.
Vilhjálmur Árnason lenti í þriðja sæti í Suðurkjördæmi og framboð hans kostaði 850 þúsund. Hann fékk 230 þúsund krónur frá þremur einstaklingum og 620 þúsund krónur frá sex fyrirtækjum.
Karen Elísabet Halldórsdóttir lenti í sjötta sæti í Suðvesturkjördæmi en framboð hennar kostaði 780 þúsund krónur. Framlögin komu öll frá sex fyrirtækjum.
Tólf frambjóðendur til viðbótar vörðu innan við 400 þúsund krónum í prófkjörsbaráttuna og hafa skilað yfirlýsingum þess efnis til Ríkisendurskoðunar.