Það skilyrði fylgdi því að stjórnarandstaðan fengi formennsku í þremur nefndum að Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, yrði formaður efnahags- og viðskiptanefndar. Skilyrðið var sett fram af Sjálfstæðisflokknum. Þetta staðfestir Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks, í Fréttablaðinu í dag.
Stjórnarandstaðan gat ekki sætt sig við þetta skilyrði Sjálfstæðisflokks og fannst óeðlilegt að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði sér að velja hvaða einstaklingar úr hvaða flokkum stjórnarandstöðu ættu að stýra þeim fastanefndum þar sem formennska átti að falla henni í skaut. Viðmælendur Kjarnans innan stjórnarandstöðunnar eru sammála um að þrír stærstu stjórnarandstöðuflokkarnir; Vinstri græn, Píratar og Framsóknarflokkurinn, hefðu átt að stýra einni nefnd hver ef samkomulag hefði náðst við stjórnarflokkanna. Það væri hins vegar stjórnarandstöðunnar að koma sér saman hvaða flokkur myndi fá formennsku í hvaða nefnd. Í ljósi þess að formennska í efnahags- og viðskiptanefnd væri skilyrt við að Lilja tæki hana að sér þá taldi stjórnarandstaðan ekki mögulegt að semja. Það væri ólýðræðislegt að Sjálfstæðisflokkurinn fengi að velja flokka og einstaklinga úr stjórnarandstöðunni sem honum hugnaðist betur en aðrir til að stýra ákveðnum nefndum. Hvorki Viðreisn né Björt framtíð settu skilyrði um að ákveðnir einstaklingar innan stjórnarandstöðuflokkanna ættu að stýra þeim nefndum sem í boði voru.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra gagnrýndi stjórnarandstöðuna harðlega í stöðuuppfærslu á Facebook í gær fyrir að gangast ekki við skilyrðum Sjálfstæðismanna og fá í kjölfarið formennsku í velferðarnefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og efnahags- og viðskiptanefnd. Bjarni spurði hvort það geti verið að Píratar hafi ekki geta unnt Framsóknarflokknum að leiða efnahags- og viðskiptanefnd og hafi „frekar viljað kasta öllu frá sér til að koma þeirri sögu á kreik að stjórnin hafi ekkert boðið?“.
Stjórnarflokkarnir munu því að öllum líkindum verða með formenn í öllum fastanefndunum átta. Kjöri formanna þeirra lýkur í dag.