Eigendur Skíðaskálans í Hveradölum hyggjast koma upp fjölbreyttri afþreyingu í nágrenni skálans. Meðal annars er í undirbúningi að reisa allt að 210 herbergja hótel í Stóradal og 8.500 fermetra baðlón ásamt baðhúsi. Það er affallsvatn úr Hellisheiðarvirkjun sem myndar lónið.
Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag. Fyrirtækið Gray Line stendur að verkefninu ásamt frumkvöðlinum Gretti Rúnarssyni.
Unnið hefur verið að skipulagningu Hveradalasvæðisins undanfarin ár, að því er segir í Morgunblaðinu. Sveitarfélagið Ölfus hefur þegar auglýst breytingu á aðal- og deiliskipulagi en áformað er að ráðast í fjölbreytta ferðaþjónustu í Hveradölum og nágrenni.
Skíðaskálinn verður endurbættur og við hlið hans er áformað að reisa gróðurhús til að kynna íslenska garðyrkju fyrir ferðafólki, að því er segir í Morgunblaðinu.
Þá verður einnig opnað endurbætt skíðasvæði.