Hugmyndir eru uppi um nýbyggingar við hið sögufræga Alliance-hús úti á Granda í Reykjavík, að því er segir í Morgunblaðinu í dag. Um milljarða uppbyggingu er að ræða þar sem meðal annars er áformað að verði íbúðir og hótel með 81 herbergi.
Byggingarnar verða alls ríflega 5.700 fermetrar að flatarmáli. „Í kynningu sem var lögð fram hjá umhverfis og skipulagsráði Reykjavíkur kemur fram að byggingunum er ætlað að mynda randbyggð sem rammar inn skjólgott útisvæði. Reykjavíkurborg er núverandi eigandi Grandagarðs 2 (Alliancehússins) og ganga áætlanir borgarinnar út á að selja húsið ásamt byggingarrétti,“ segir í frétt Morgunblaðsins.
Borgarráð samþykkti í júní 2012 kaupsamning Reykjavíkurborgar um kaup á Alliance-húsinu að Grandagarði 2 en húsið stendur á tæplega 3.600 fermetra lóð sem fylgdi með í kaupunum. Kaupverðið var 340 milljónir króna, að því er segir í Morgunblaðinu.