„Það er forgangsmál að berjast gegn hryðjuverkum en baráttan verður erfiðari og það gerir illt verra ef við mismunum fólki eftir trúarbrögðum eða kynþætti.“ Þetta segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í stöðuuppfærslu á Facebook.
Á Vísi segir að Guðlaugur Þór hafi staðfest að tilefni færslunnar séu áhyggjur af fyrirskipun Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, um að banna komu fólks til Bandaríkjanna frá sjö ríkjum þar sem múslimar eru í miklum meirihluta. Trump hefur einnig fyrirskipað að ekki verið tekið við flóttafólki frá Sýrlandi. Þar segir Guðlaugur einnig að fyrirskipun Trump brjóti í bága við íslensk gildi. „Við munum standa fast á þeim gildum sem við stöndum fyrir og munum halda því áfram."
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og meðlimur í utanríkismálanefnd, hefur óskað eftir því að fundur verði haldin í nernfdinni hið fyrsta með utanríkisráðherra til að ræða aðgerðir Bandaríkjaforseta. Í tilkynningu segir: „Ósk um fundinn með utanríkisráðherra er til að ræða viðbrögð annarra ríkja og ekki síst hver viðbrögð íslenskra stjórnvalda verði; bæði út frá samskiptum þjóðanna og mannréttindasjónarmiðum sem og hagsmunum á borð við flugsamgöngur.“ Guðlaugur Þór segir sjálfsagt að funda með nefndinni um málið.