Ásta Sigríður Fjelsted verður næsti framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag. Hún hefur starfað hjá ráðgjafarfyrirtækinu McKinsey & Company frá árinu 2012. Það gerði forveri hennar í starfi, Frosti Ólafsson, einnig áður en hann tók við framkvæmdastjórastöðunni fyrir um fjórum árum. Frosti hefur verið ráðinn forstjóri hjá Orf líftækni.
Morgunblaðið greinin einnig frá því að Björn Brynjólfur Björnsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, hafi einnig sagt starfi sínu lausu. Hann hefur starfað hjá ráðinu síðan í febrúar 2014 en starfaði þar áður með Frosta hjá McKinsey & Company í Kaupmannahöfn og í greiningardeild fjárfestingarbankans Credit Suisse í London.
Ásta er með mastersgráðu í rekstrarverkfræði frá Tækniháskóla Danmerkur (DTU) og BS-gráðu frá sama skóla í vélaverkfræði.
Rágjafafyrirtækið McKinsey & Company í Kaupmannahöfn vann meðal annars að gerð skýrslu fyrirtækisins um Ísland og vaxtarmöguleika þess í framtíðinni sem kom út árið 2012. Á grunni skýrslunnar var skipaður samráðsvettvangur um aukna hagsæld, þverpólitískur og þverfaglegur vettvangur sem ætlað var að stuðla að heildstæðri og málefnalegri umræðu um leiðir til að tryggja hagsæld Íslendinga til lengri tíma litið.