Ferðakostnaður og starfskostnaður þingmanna verður lækkaður um ríflega 100 þúsund krónur, sem samsvarar um 150 þúsund króna launalækkun fyrir skatt. Þetta var ákveðið á fundi forsætisnefndar Alþingis í morgun að tillögu Unnar Brár Konráðsdóttur, forseta Alþingis.
„Ferðakostnaður lækkar um 54 þús. kr. sem jafna má til um 100 þús. kr. í launagreiðslu, og starfskostnaður lækkar um 50 þús. kr.; samanlagt má jafna þessari lækkun við 150 þús. kr. fyrir skatt. Samkvæmt þessum breytingum eiga því greiðslur til þingmannna, þ.e. þingfararkaup og fastar mánaðarlegar greiðslur, að vera innan þeirrar launaþróunar sem orðið hefur frá því að kjararáð hóf að úrskurða um þingfararkaup árið 2006,“ segir í tilkynningu frá Unni Brá.
Formenn stjórnmálaflokkanna á Alþingi fóru þess á leit við forsætisnefnd í desember síðastliðnum að hún endurskoðaði reglur um þingfararkostnað, það er starfstengdar greiðslur til þingmanna, sem eru fastar mánaðarlegar greiðslur. Þetta var gert í tengslum við gagnrýni sem kom fram á mikla hækkun á kjörum þingmanna, sem kjararáð ákvað á kjördag í lok október síðastliðnum.
Samkvæmt úrskurði kjararáðs voru laun forseta Íslands hækkuð í 2.985.000 krónur á mánuði, þingfararkaup alþingismanna fór í 1.101.194 krónur á mánuði, laun forsætisráðherra að meðtöldu þingfararkaupi eru nú 2.021.825 krónur á mánuði og laun annarra ráðherra að meðtöldu þingfararkaupi 1.826.273 krónur á mánuði. Laun forsætisráðherra voru áður tæplega 1,5 milljónir en laun forseta voru tæpar 2,5 milljónir.
Laun þingmanna hækkuðu hlutfallslega mest við ákvörðun Kjararáðs, eða um 44,3 prósent. Krónutöluhækkun launa þeirra var 338.254 krónur.
Á fundi forsætisnefndar Alþingis var einnig samþykkt að taka núverandi lög um þingfararkaup og þingfararkostnað til endurskoðunar, þar sem leiðarljósið verði einföldun og gagnsæi.