Bandarískur efnahagur á allt undir fjölbreytileika og alþjóðlegu tengingum. Þetta hefur glögglega sést undanfarna daga eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti fyrir skipaði komubann á alla borgara frá sjö ríkjum heimsins, Sýrlandi, Sómalíu, Súdan, Líbíu, Írak, Íran og Jemen. Í öllum ríkjunum er múslimatrú í meirihluta.
Mótmæli og málsóknir
Ákvörðunin hefur valdið gríðarlegum titringi í Bandaríkjunum og á heimsvísu sömuleiðis. Mótmælt hefur verið á öllum stærstu flugvöllum Bandaríkjanna en fjölmennustu mótmælin hafa verið á JFK flugvellinum í New York.
Þar hafa auk þess lögmenn frá lögmannsstofum í borginni unnið frítt að því að aðstoða þá sem hafa orðið fyrir skaða vegna bannsins ekki komist inn í Bandaríkin.
Þau fyrirtæki sem hafa látið einna mest í sér heyra eru stærstu fyrirtæki landsins, Google, Microsoft, Amazon og Facebook ekki síst. Amazon og Microsoft hafa ákveðið að fara í mál við Donald Trump og styðja þannig ákvörðun heimaríkisins fyrirtækjanna, Washington, í þeim efnum en það var fyrsta ríkið til að höfða mál vegna bannsins og var það gert fyrir alríkisdómstóli í Seattle. Málsókn ríkisins og fyrirtækjanna byggir á því að bannið feli í sér brot gegn stjórnarskrárvörðum rétti fólksins sem sé mismunað á grundvelli þjóðernis með ólöglegum hætti. Farið er fram á að úrskurður liggi fyrir innan fjórtán daga.
Gengu út
Starfsmenn Google, um tvö þúsund talsins, gerðu hlé á störfum sínum í gær og mótmæltu banninu með táknrænum hætti, en Sundar Pichai, forstjóri Google, sagði bannið ná til um 200 starfsmanna fyrirtækisins. Hann mótmælti því harðlega en sagði að fyrirtækið myndi styðja starfsmenn með öllum ráðum. Fyrirtækið hefur jafnframt lagt um fjórar milljónir Bandaríkjadala, tæplega 500 milljónir króna, í sjóð sem mun aðstoða þá sem verða fyrir áhrifum af banninu.
Viðbrögðin hafa verið svipuð hjá tugum annarra fyrirtækja sem eru með starfsmenn frá þessum löndum. Microsoft setti strax saman lögfræðiteymi sem vinnur fyrir fólkið, og ver hagsmuni þess. Svipaða sögu er að segja af Amazon, Goldman Sachs, Bank of America, JP Morgan og fleiri alþjóðlegum fyrirtækjum í Bandaríkjunum. Lloyd Blankfein, forstjóri og stjórnarformaður Goldman Sachs, sendi starfsmönnum pistil á hljóðskrá á sunnudaginn þar sem hann sagði bannið ekki í takt við gildi bankans og það ylli honum áhyggjum.
Mótmælt við háskóla vítt og breitt
Bannið hefur mikil áhrif á starfsfólk háskóla og nemendur. Samkvæmt Quartz þá kemur bannið verst við meistaranema en um 12.260 slíkir eru við nám í Bandaríkjunum frá löndunum sjö. Nemendur í BA námi eru um 2.300 talsins og nemendur sem eru á svonefndur OPT-Visa, sem þeir fá að lokinni útskrift og veitir rétt til að dvelja í landinu í eitt ár, eru 1.940 talsins.
Samtals hefur bannið áhrif á um 90 þúsund einstaklinga sem höfðu leyfði til að dveljast í Bandaríkjunum, fyrir utan síðan alla hina sem búa ekki í Bandaríkjunum. Í umfjöllun Washington Post í gær kemur fram að stærsti hópurinn komi frá Íran eða um 42 þúsund manns. Bannið náði einnig til flóttamanna frá Sýrland sem lokað var á. Meginskýring Trump að baki þessari ákvörðun hefur verið sú að þetta þurfi að gera af öryggisástæðum, en þær eru meira en lítið umdeilanlegar. Þvert á móti hafa sumir sagt, þar á meðal John McCain, þingmaður Repúblikana, að bannið geti aukið á óöryggi og skapað meiri hættu á hryðjuverkum.
Trump segir bannið hafa reynst vel og neita með öllu að afnema það, en þó er það ekki jafn strangt nú og það var í fyrstu. Þeir sem hafa svonefnt grænt kort hafa heimild til þess að koma til landsins, en þannig var það ekki í fyrstu.
Trump rak í gær starfandi dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, Sally Yates, eftir að hún hafði efast um lögmæti ákvörðunar Trumps um að banna komu fólks frá löndunum sjö til landsins. Dana Boente hefur tekið við starfinu tímabundið.