Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur endurskipað í samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga. Samkvæmt fréttatilkynningua var sérstaklega horft til þess að auka vægi umhverfis- og neytendasjónarmiða í hópnum.
Fulltrúum hefur verið fjölgað úr tólf í þrettán. Umhverfisráðherra tilnefndir einn fulltrúa og Félag atvinnurekenda einn, til viðbótar þeim sem þegar voru skipaðir samkvæmt tilnefningu. Þá hefur skipan þriggja fulltrúa af fimm sem fyrri ráðherra skipaði án tilnefningar verið afturkölluð. Í þeirra stað hefur ráðherra skipað Brynhildi Pétursdóttur, fyrrverandi alþingismann og starfsmann Neytendasamtakanna og Svanfríði Jónasdóttur, sem verður formaður hópsins. Skipan Guðrúnar Rósu Þórsteinsdóttur, sem átti að vera formaður hópsins, Bjargar Bjarnadóttur og Ögmundar Jónassonar, fyrrverandi alþingismanns, hefur verið afturkölluð.
Í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu segir að það sé mat ráðherra „að mikilvægt sé að víðtæk samvinna og sátt náist við breytingar á búvörusamningi og búvörulögum. Í stjórnarsáttmála segir m.a. „… að við þessar breytingar verði lögð áhersla á hagsmuni og valfrelsi neytenda og bænda. Áfram verði tryggð framleiðsla heilnæmra, innlendra afurða í umhverfisvænum og samkeppnishæfum landbúnaði.“ Breið aðkoma hagsmunaaðila við endurskoðun búvörusamnings er því nauðsynleg. Er miðað við að endurskoðun ljúki eigi síðar en árið 2019.“
Skipaði í hópinn eftir kosningar
Gunnar Bragi Sveinsson, fráfarandi ráðherra málaflokksins, lauk upphaflega við að skipa í samráðshópinn 18. nóvember síðastliðinn, þremur vikum eftir kosningar og mánuði eftir að skipan hans átti upphaflega að liggja fyrir. Af þeim tólf fulltrúum sem skipaðir voru í hópinn voru átta fulltrúar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis eða Bændasamtaka Íslands, þeir sömu og gerðu búvörusamninganna í febrúar 2016 sem til stendur að endurskoða. Launþegar, atvinnulífið og neytendur áttu samtals fjóra fulltrúa.
Kjarninn greindi frá því 11. janúar síðastliðinn að Þorgerður Katrín ætlaði sér að endurskipa í hópinn.
Bændur hafa neitunarvald
Búvörusamningar til tíu ára voru undirritaðir í febrúar 2016 og samþykktir á Alþingi síðastliðið haust. Kostnaður ríkissjóðs vegna þeirra er 13-14 milljarðar króna á ári.
Einungis 19 þingmenn, eða 30 prósent allra þingmanna, greiddu atkvæði með búvörusamningunum þegar þeir voru samþykktir á Alþingi á í september. Sjö sögðu nei en aðrir sátu hjá eða voru ekki viðstaddir atkvæðagreiðsluna sem mun móta eitt af lykilkerfum íslensks samfélags, hið ríkisstyrkta landbúnaðarkerfi, næsta áratuginn.
Í lok ágúst lagði meirihluti atvinnuveganefndar fram breytingartillögur á samningunum. Þegar þær voru kynntar var látið að því liggja að í tillögunum væri skýrt kveðið á um endurskoðunarákvæði innan þriggja ára. Engar frekari breytingar voru gerðar á lögum sem gera samninganna gildandi eftir þær breytingatillögur. Ákvæðið um endurskoðun samninganna er þó ekki mjög skýrt. Í áliti meirihlutanefndar atvinnuveganefndar sagði: „Meiri hlutinn leggur áherslu á að við samþykkt frumvarpsins nú eru fyrstu þrjú ár samninganna staðfest og mörkuð framtíðarsýn til tíu ára. Meiri hlutinn leggur til ákveðna aðferðafræði fyrir endurskoðun samninganna árið 2019 og skal ráðherra þegar hefjast handa við að endurmeta ákveðin atriði og nýtt fyrirkomulag gæti mögulega tekið gildi í ársbyrjun 2020. Meiri hlutinn leggur til að endurskoðunin byggist á aðferðafræði sem feli í sér víðtæka samstillingu um landbúnaðinn, atkvæðagreiðslu um endurskoðaða samninga meðal bænda og afgreiðslu Alþingis á lagabreytingum sem sú endurskoðun kann að kalla á.“
Í breytingartillögunni sjálfri sagði: „Eigi síðar en 18. október 2016 skal sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipa samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga. Tryggja skal aðkomu afurðastöðva, atvinnulífs, bænda, launþega og neytenda að endurskoðuninni og skal henni lokið eigi síðar en árið 2019. Skulu bændur eiga þess kost að kjósa um nýjan búvörusamning eða viðbætur við fyrri samninga.
Kjarninn beindi fyrirspurn til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins um hvort að það bæri að skilja lögin þannig að bændur myndu alltaf fá að kjósa um þá endurskoðun sem muni eiga sér stað eigi síður en árið 2019. Svar ráðuneytisins var já.
Þegar spurt var hvað myndi gerast ef bændur myndu hafna þeirri endurskoðun í atkvæðagreiðslu var svarið: „Ef bændur hafna þeim breytingum sem hugsanlega verða gerðar við endurskoðunina 2019 verður aftur sest niður og leitað frekari samninga.“
Mikil áhersla lögð á að fá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti
Björt framtíð greiddi ein stjórnmálaflokka í heild sinni atkvæði gegn samningunum. Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar eru engar kollsteypur í landbúnaði. Þar segir að endurskoðun búvörusamnings verði grunnur að nýja samkomulagi við bændur, sem miðað er við að ljúki eigi síðar en árið 2019.
Í sáttmálanum segir að af hálfu stjórnvalda verði „hvatt til að vægi almennari stuðnings verði aukið, svo sem til jarðræktar, fjárfestingar, nýsköpunar, umhverfisverndar og nýliðunar, en dregið úr sértækum búgreinastyrkjum. Endurskoða þarf ráðstöfun innflutningskvóta og greina forsendur fyrir frávikum frá samkeppnislögum fyrir mjólkuriðnaðinn og gera viðeigandi breytingar.“
Viðreisn lagði hins vegar mikla áherslu á að fá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið til að geta komið á breytingum á þeim málaflokkum, þótt engar tímasettar eða útfærðar breytingar séu í stjórnarsáttmála. Endurskipun starfshóps um endurskoðun búvörusamninga er fyrsta skrefið í þá átt.