Íslensk stjórnvöld þurfa strax að endurskoða tvísköttunarsamninga við Holland og Lúxemborg í ljósi niðurstöðu skýrslu um aflandseignir Íslendinga. Þetta segir Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, við RÚV.
Óli Björn segir ljóst að skýrslan varpi aðeins takmörkuðu ljósi á það vandamál sem við sé að glíma og heilsteypari myndi þurfi að fást. „Ég held að það sem þessi skýrsla kennir okkur er að gagnaöflun og gagnasöfnun um fjármagnsflutninga er ekki eins og hún ætti að vera hér hjá okkur.“
Óli Björn sagði líka að eftirlitsstofnanir eins og ríkisskattstjóri þurfi að meta til hvaða aðgerða eigi að grípa. „En það er líka ljóst, finnst mér, að við þurfum að endurskoða nú þegar tvísköttunarsamninga sem eru í gildi milli Íslands og Hollands og Lúxemborgar. Þeir samningar eru ekki eins og til var stofnað, það er alveg ljóst.“
Þá vill hann einnig að framkvæmd fjárfestingarleiðar Seðlabankans verði skoðuð. „Þegar veittur var 20% afsláttur af íslensku krónunni, og meðal annars íslenskir aðilar með fjármagn erlendis nýttu sér fjárfestingarleiðina. Það eru margar spurningar sem vakna þar, og ég held að við þurfum að skoða þá framkvæmd, hvernig var staðið að verki þar.“