Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjavík, hefur tilkynnt um framboð sitt til varaformanns flokksins. Kjörið fer fram næsta laugardag, en Samfylkingin hefur verið varaformannslaus frá því að fyrrverandi varaformaður, Logi Einarsson, tók við formennsku í flokknum eftir síðustu Alþingiskosningar. Oddný Harðardóttir sagði af sér formennsku í kjölfar þess að Samfylkingin beið afhroð í kosningunum og fékk einungis þrjá þingmenn kjörna.
Í yfirlýsingu á Facebook segir Heiða að framundan séu spennandi tímar við endurreisn flokksins, undirbúning sveitarstjórnarkosninga og pólitíska baráttu fyrir hugsjónum jafnaðarstefnunnar. „Ég óska eftir skýru umboði til að leiða þá vinnu með formanni flokksins.
Verkefnin eru sannarlega ærin, andspænis afar hægrisinnaðri ríkisstjórn og sundraðri hreyfingu jafnaðarmanna. Engu að síður tel ég fullt tilefni til bjartsýni, enda býr Samfylkingin yfir miklum mannauði og jafnaðarstefnan á brýnt erindi, nú sem fyrr.
Ykkur sem hafið að undanförnu hvatt mig til framboðs og sent mér jákvæð viðbrögð á mitt pólitíska starf, þakka ég af heilum hug, enda er fátt mikilvægara stjórnmálamanni, en að finna slíka velvild. Ég hlakka til áframhaldandi samfylgdar og samstarfs – saman mótum við betra samfélag fyrir alla!“
Upphaflega stóð til að kjósa nýjan varaformann Samfylkingarinnar í nóvember. Þann 17. nóvember sendi Logi Einarsson, formaður flokksins, hins vegar póst á flokksmenn þar sem hann tilkynnti að flokkstjórnarfundi, þar sem kjörið átti að fara fram, yrði frestað vegna þreifinga um stjórnarmyndun sem þá áttu sér stað milli fimm flokka undir forystu Vinstri grænna. Ekki tókst að mynda þá ríkisstjórn og tók ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar, sem samanstendur af Sjálfstæðisflokki, Viðreisn og Bjartri framtíð, við völdum fyrr í þessum mánuði.