Neil Gorsuch verður líklega nýr dómari í Hæstarétti Bandaríkjanna eftir að Donald J. Trump tilnefndi hann dómara í spennuþrunginni athöfn. Gorsuch er sagður íhaldssamur dómari, Repúblikani alveg inn að beini, en þykir um margt hafa staðið sig vel á dómaraferli sínum til þessa, að því er segir í New York Times.
Demókratar hafa þó þegar, margir hverjir, mótmælt útnefningu Gorsuch og sagt hana grafa undan stjórnskipan landsins og útilokað sjálfstæð vinnubrögð réttarins. Elisabeth Warren er einn þeirra sem hefur gagnrýnt skipan Gosuch og segir dómaraferil hans sýna að hann hafi ekki það sem þarf til að takast á við starfið, flóknara sé það nú ekki.
Gorsuch er 49 ára gamall og með lögfræðimenntun frá Columbia í New York og Harvard háskóla í Boston.
Gorsuch hefur starfað við áfrýjunardómstólinn í Denver og er málsvari trúfrelsis og þykir mikill bókstafstrúarmaður þegar kemur að túlkun stjórnarskrárinnar. Hann segist horfa mikið ti þess hvernig Scalia nálgaðist dómarastarfið en hann var 79 ára þegar hann lést.
Gorusch sagði í ræðu, sem hann flutti þegar hann var útefndur dómari, að hann hefði alltaf litið upp til Antonin Scalia, sem lést í febrúar síðastliðnum. Scalia var umdeildur fyrir íhaldssamar skoðanir og þótti vera haukur í horni á íhaldssamasta hluta Repúblikanaflokksins.