Sex þingmenn Vinstri grænna hafa lagt fram frumvarp um breytingu á almennum hegningarlögum þannig að ekki verði lengur refsivert samkvæmt íslenskum lögum að móðga erlenda þjóðhöfðingja.
Í hegningarlögunum er nú grein sem kveður á um að hver sem opinberlega smánar erlenda þjóð eða erlent ríki, æðsta ráðamann, þjóðhöfðingja þess eða fána eigi að sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.
Þingmennirnir leggja fram frumvarpið á nýjan leik, en það var lagt fyrir á síðasta þingi líka. „Á undanförnum misserum hefur talsvert verið þrengt að tjáningarfrelsi víða um heim. Frelsi blaðamanna hefur verið skert og stjórnvöld í einstökum ríkjum hafa reynt að uppræta gagnrýna umræðu, jafnvel yfir landamæri,“ segir í greinargerð þingmannanna. Tekið er dæmi af máli þar sem þýsk stjórnvöld létu undan þrýstingi frá Tyrklandsstjórn og heimiluðu málaferli gegn grínista sem hafði farið óvirðulegum orðum um Erdogan forseta Tyrklands. Ákvörðun þýskra stjórnvalda hafi verið mjög umdeild og álitshnekkir fyrir stjórnvöld, en hún byggist á lögum sem gilda þar og fela í sér refsingar við því að smána erlenda þjóðhöfðingja eða ríki.
„95. gr. almennra hegningarlaga felur í sér afar hörð viðurlög við því að smána erlend ríki, þjóðhöfðingja eða þjóðartákn á borð við fána. Þá er tiltekið að óheimilt sé að ráðast gegn sendierindrekum með ofbeldi eða valda eignarspjöllum á sendiráðum eða lóðum þeirra. Lagaákvæðum sem standa eiga vörð um sóma erlendra þjóðhöfðingja hefur sjaldan verið beitt hér á landi og enn sjaldnar fallið dómar á grunni þeirra. Þau fáu tilvik hafa þó síst verið landi og þjóð til sóma. Þannig hlaut rithöfundurinn Þórbergur Þórðarson dóm fyrir að kalla Adolf Hitler blóðhund og skáldið Steinn Steinarr fyrir að smána hakakrossfána þýska nasistaflokksins. Óhætt er að segja að sagan hafi farið mjúkum höndum um þau afbrot,“ segir enn fremur í greinargerðinni.