Miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) telur að forsætisnefnd nýs Alþingis hafi fallið á fyrstu prófraun sinni og „og sýnt að Alþingi skortir jarðsamband og tengsl við almenning í landinu.“ Það hafi nefndin sýnt þegar hún ákvað að beita sér ekki fyrir breytingum á launahækkunum þingmanna heldur draga einungis úr starfskostnaði þeirra. Þetta kemur fram í ályktun sem miðstjórn ASÍ hefur sent frá sér.
Forsætisnefnd ákvað á þriðjudag að ferðakostnaður og starfskostnaður þingmanna verður lækkaður um ríflega 100 þúsund krónur, sem samsvarar um 150 þúsund króna launalækkun fyrir skatt. Það var viðbragð við kröfum um að miklar launahækkanir þingmanna, sem kjararáð úrskurðaði um á kjördag í október, yrðu dregnar til baka. Alls hækkuðu laun þingmanna um 44,3 prósent við ákvörðunina, eða um 338.254 krónur á mánuði. Þeir eru nú með 1.101.194 krónur í þingfarakaup.
Ákvörðun kjararáðs var harðlega gagnrýnd og mikill þrýstingur skapaðist á stjórnmálamenn að beita sér fyrir því að draga hækkunina að einhverjum leyti til baka. Í ályktun ASÍ segir að landsmönnum hafi ofboðið launahækkunin. „Síðan þá er búið að skipta um helming þingmanna og snérust kosningarnar í haust ekki síst um breytt siðferði. Nýir þingmenn höfðu tækifæri til að beita sér og sýna í verki að alvara lá að baki kosningaloforðum og taka til baka hækkun þingfaralauna umfram það sem hinn almenni launamaður hefur fengið í sitt umslag. Miðstjórn Alþýðusambandsins mótmælir hálfkáki forsætisnefndar þingsins og krefst þess að Alþingi taki málið upp og afturkalli hækkanir kjararáðs. Miðstjórn ASÍ minnir á að forsenduákvæði kjarasamninga eru til endurskoðunar nú í febrúar og hækkanir til alþingismanna og æðstu embættismanna geta sett framhald kjarasamninga alls þorra landsmanna í uppnám.“
Samkvæmt úrskurði kjararáðs voru laun forseta Íslands hækkuð í 2.985.000 krónur á mánuði, þingfararkaup alþingismanna fór í 1.101.194 krónur á mánuði, laun forsætisráðherra að meðtöldu þingfararkaupi eru nú 2.021.825 krónur á mánuði og laun annarra ráðherra að meðtöldu þingfararkaupi 1.826.273 krónur á mánuði. Laun forsætisráðherra voru áður tæplega 1,5 milljónir en laun forseta voru tæpar 2,5 milljónir.
Laun þingmanna hækkuðu, líkt og áður sagði, hlutfallslega mest við ákvörðun kjararáðs, eða um 44,3 prósent. Krónutöluhækkun launa þeirra var 338.254 krónur.