Verð á hlutabréfum í Icelandair Group lækkaði áfram í dag, en þó talsvert minna en í gær. Við lokun markaða í dag hafði hlutabréfaverð í félaginu lækkað um 1,54 prósent, í rétt um fjögur hundruð millljóna króna viðskiptum.
Markaðsvirði Icelandair lækkaði um 24 prósent á miðvikudag eftir að félagið sendi út afkomuviðvörun, og um 3,57 prósent í gær. Í heildina er lækkunin á hlutabréfaverði í félaginu 30,04 prósent á einni viku.
Alls hefur markaðsvirði Icelandair lækkað um rúmlega 110 milljarða króna frá því í apríl 2016. Markaðsvirðið er nú um 80 milljarðar króna.
Hægari bókanir og óvissa í alþjóðastjórnmálum
Í tilkynningunni um versnandi afkomu sem send var út í vikunni sagði að að undanförnu hafi orðið breyting á bókunarflæði Icelandair til hins verra. „Bókanir eru hægari en gert var ráð fyrir og meðalfargjöld á mörkuðum hafa lækkað umfram spár. Þessa þróun má einkum rekja til aukinnar samkeppni en einnig má leiða líkur að því að óvissa vegna breytinga í alþjóðastjórnmálum hafi áhrif á eftirspurn. Að auki hafa gjaldmiðlar þróast á óhagstæðan máta miðað við fyrra ár, olíuverð hefur hækkað og verkfall í sjávarútvegi hefur neikvæð áhrif á fraktstarfsemi félagsins.“
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, sagði í kvöldfréttum RÚV í vikunni að hann hefði áhyggjur af stöðunni og þess vegna hefði afkomuviðvörunin verið send út. Hann sagði þó að hafa þyrfti í huga að 2016 hefði verið mjög gott ár hjá félaginu og að það væri mjög vel í stakk búið til að takast á við áskoranir sem það stæði frammi fyrir.
Eign lífeyrissjóðs hefur fjórfaldast
Stærsti einstaki eigandi Icelandair er Lífeyrissjóður verzlunarmanna, sem á 14,7 prósent hlut í félaginu. Hann sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem bent var á að meirihluti þess hlutafjár sem sjóðurinn á í Icelandair hafi verið keyptur árið 2010 á genginu 2,5, en það er nú 16,2 krónur á hlut.
Vegið kaupgengi allra hluta í Icelandair sé 3,7 og miðað við það sé virði hlutabréfanna enn meira en fjórfalt kaupvirði þeirra. „Þegar tekið hefur verið tillit til 1.523 mkr arðgreiðslna er raunávöxtun þessarar fjárfestingar frá 2010 til dagsins í dag 32,34%, sem telst mjög góð afkoma.“
Lestu fréttaskýringu um hvað sé að valda verðhruni á bréfum Icelandair hér.