Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, mun greiða atkvæði á móti nýju áfengisfrumvarpi, sem hefur það markmið að afnema einkasölu ÁTVR á áfengi. Ásmundur segir við Fréttablaðið að hann hafi haft þessa afstöðu lengi og finnist fyrirkomulagi áfengissölu ágætlega fyrir komið. „Ég er mjög íhaldssamur í þessum efnum.“ Afstaða Ásmundar er í andstöðu við samþykkta landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins frá landsfundi hans árið 2015. Þar sagði að mikilvægt sé „ að stjórnvöld stuðli að heilbrigðri samkeppni á neytendavörumarkaði. Löngu tímabært er að afnema samkeppnisrekstur ríkisins í smásölu og gefa verslun með áfengi frjálsa.“
Níu þingmenn úr fjórum flokkum lögðu fram frumvarpið í gær. Verði það að lögum verður einkaleyfi ÁTVR á áfengissölu afnumið frá og með næstu áramótum, sala á því heimiluð í sérverslunum, í sérrýmum innan verslanna eða yfir búðarborð, áfengisauglýsingar innlendra aðila heimilaðar og leyfilegt verður að auglýsa það í innlendum fjölmiðlum.
Þingmennirnir sem leggja frumvarpið fram koma úr Sjálfstæðisflokki, Viðreisn, Bjartri framtíð og Pírötum. Þeir eru Teitur Björn Einarsson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Vilhjálmur Árnason og Hildur Sverrisdóttir úr Sjálfstæðisflokki, Pawel Bartoszek úr Viðreisn, Nichole Leigh Mosty úr Bjartri framtíð og Píratarnir Jón Þór Ólafsson, Ásta Guðrún Helgadóttir og Viktor Orri Valgarðsson. Pawel sagði í samtali við Kjarnann að hann teldi nokkuð öruggan meirihluta á þinginu fyrir málinu. Alls eru þingmenn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Pírata 42 talsins. Því mættu tíu þingmenn flokkanna vera á móti frumvarpinu, það yrði samt sem áður með meirihluta.
Auk Ásmundar lýsir Einar Brynjólfsson, þingmaður Pírata, yfir efasemdum um frumvarpið í Fréttablaðinu í dag. Þar segist hann óviss um hver afstaða hans verði til atkvæðagreiðslunnar og að hann muni mjög líklega byggja ákvörðun sína á umsögnum landlæknis.
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, stóð að framlagningu sambærilegs frumvarps í tvígang á síðasta kjörtímabili. Í síðara skiptið voru flutningsmenn frumvarpsins 16 talsins. Þeir komu þá úr röðum Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Bjartrar framtíðar og Pírata. Af þeim eru tíu enn á þingi og fjórir ráðherrar í nýrri ríkisstjórn. Það eru þau Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra.