Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra, segir að honum sýnist sem að skil á skýrslu um þjóðhagsleg áhrif Leiðréttingarinnar, niðurfærslu á verðtryggðum húsnæðislánum hluta þeirra Íslendinga sem voru með slík á árunum 2008 og 2009, hafi tekið of langan tíma. „Ég harma það að það skuli hafa tekið þetta langan tíma að svara þessari tilteknu fyrirspurn. Mér finnst í sjálfu sér slæmt að það skyldi hafa verið þannig.“
Engin ástæða hafi þó verið fyrir ríkisstjórnina að halda frá fólki upplýsingum um áhrif aðgerðarinnar, sem hún væri stolt af. Þetta kemur fram á mbl.is.
Skilað 19 mánuðum eftir að beiðni var lögð fram
Kjarninn greindi frá því á laugardag að vinnslu við skýrsluna hafi lokið um miðjan október 2016, áður en síðustu Alþingiskosningar fóru fram. Í janúar 2017 var fyrstu efnisgrein skýrslunnar bætt við hana og hún í kjölfarið birt á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins þann 18. janúar, þremur mánuðum eftir að vinnslu hennar lauk.
Vinna við skýrsluna hófst fljótlega eftir að beiðni um gerð hennar barst fjármála- og efnahagsráðuneytinu í október 2015, fyrir rúmum 15 mánuðum síðan. Fyrstu drög að henni voru send til yfirlestrar um miðjan janúar 2016, fyrir ári síðan. Í byrjun júní 2016 var síðan óskað eftir viðbótargögnum frá ríkisskattstjóra og ný drög að skýrslunni tilbúin í sama mánuði. Vinnslu hennar lauk svo um miðjan október 2016.
Leiðréttingaskýrslan sem birt var 18. janúar er önnur skýrslan sem ráðuneytið hefur unnið um Leiðréttinguna, niðurfærslu á verðtryggðum fasteignalánum um 72,2 milljarða króna. Þann 29. júní 2015 birti Bjarni, þá fjármála- og efnahagsráðherra, skýrslu sína um lækkun höfuðstóls verðtryggðra húsnæðisveðlána. Hún hafði upphaflega átt að birtast í desember 2014 og verið í „lokafrágangi“ frá því í maí 2015. Skýrslan varpaði skýrara ljósi á því hvernig Leiðréttingin skiptist á milli þeirra sem hana fengu, en svaraði ekki öllum þeim spurningum sem fram höfðu verið lagðar.
Það sem vantaði sérstaklega var samhengi við alla aðra framteljendur. Þ.e. hvernig Leiðréttingin dreifðist þegar allir Íslendingar eru skoðaðir saman, ekki bara þeir sem voru þiggjendur hennar. Þá vantaði líka að sjá hvernig hún skiptist á milli allra eftir hreinum eignum. Beiðni um nýja skýrslu sem skýrði þetta var lögð fram á Alþingi í júní 2015, fyrir 19 mánuðum. Hún var samþykkt í október sama ár, fyrir tæpum 15 mánuðum síðan. Skýrslan var svo birt 18. janúar 2017.
Stoltur af Leiðréttingunni
Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa gagnrýnt Bjarna fyrir að hafa ekki birt skýrsluna fyrir kosningar. Bjarni hafnar þeirri gagnrýni í samtali við mbl.is og segir enga ástæðu vera fyrir ríkisstjórnina að upplýsingum um áhrif Leiðréttingarinnar frá almenningi. Þvert á móti sé ríkisstjórnin stolt af framkvæmdinni. „Að reyna að halda því fram, að ríkisstjórnin hafi ekki viljað ræða leiðréttinguna, sem var eitt stærsta loforð síðustu ríkisstjórnar og um leið eitt af því sem hún var stolt af, það er einhver undarleg söguskýring,“ segir Bjarni.