Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir að það hafi ekki komið honum né Sjálfstæðisflokknum vel að skýrslur um aflandseignir og um þjóðhagslega skiptingu Leiðréttingarinnar, niðurgreiðsla verðtryggðra lána hluta þeirra Íslendinga sem voru með slík á árunum 2008 og 2009, hafi ekki verið birtar fyrir síðustu kosningar. Báðar skýrslurnar voru tilbúnar áður en að kosið var í október en voru ekki birtar fyrr en í janúar 2017. Þetta kom fram í viðtali við Bjarna í Silfrinu á RÚV í dag.
Bjarni segir að það hafi ekki verið gott að það hafi tekið svo langan tíma að gera og birta skýrslunnar og þykir miður að það hafi dregist. Það hafi hins vegar engum tekist að benda á hvað það hafi verið í aflandseignaskýrslunni sem komi sér sérstaklega illa fyrir hann og að allar tilraunir til slíks hafi „algjörlega mistekist“. Skýrslan hafi verið tekin saman að hans frumkvæði og til þess að hægt yrði að undirbyggja betri umræðu um þessi mál.
Varðandi Leiðréttingaskýrsluna, sem var birt 19 mánuðum eftir að beðið var um gerð hennar á Alþingi, þá segir Bjarni að það sé ekki ekki hægt að halda því fram að hann hafi haft einhvern hag af því að taka ekki umræðu um Leiðréttinguna fyrir kosningar. „Því er einmitt öfugt farið.“ Það hafi ekki verið nýjar upplýsingar fyrir neinn að Leiðréttingin hafi ekki skilað sér til þeirra sem engin verðtryggð lán höfðu. „Þetta er algjör delluumræða að láta sem svo að það séu einhverjar fréttir í því að fólk með engar eignir hafi ekki fengið leiðréttingu,“ sagði Bjarni. Aðgerðin hafi aldrei átt að vera félagsleg jöfnunaraðgerð heldur beint að skuldastöðu heimilanna.
Í skýrslunni var í fyrsta sinn greint frá því hvernig Leiðréttingin, 72,2 milljarðar króna sem greiddir voru úr ríkissjóði, skiptust á milli eigna- og tekjuhópa á Íslandi. Þar kom m.a. fram að sá helmingur þjóðarinnar sem átti mestar eignir fékk 72 prósent alls þess fjár sem greitt var út vegna aðgerðarinnar. Hinn helmingurinn fékk 28 prósent. Þau 20 prósent Íslendinga sem áttu mestar hreinar eignir fengu samtals 22,7 milljarða króna í leiðréttingu, eða tæplega þriðjung hennar. Alls fór 86 prósent af Leiðréttingunni til tekjuhærri helmings þjóðarinnar en 14 prósent til þess sem var tekjulægri. Tíu prósent Íslendinga sem var með hæstu launin fékk 22 milljarða króna úr aðgerðinni, eða tæp 30 prósent alls þess fjár sem var ráðstafað úr henni.