Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, spurði Bjarna Benediktsson forsætisráðherra að því í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag hvort hann skuldaði ekki Alþingi afsökunarbeiðni vegna þess að tvær skýrslur sem voru á hans borði voru ekki birtar opinberlega fyrir kosningar.
Skýrslurnar tvær eru annars vegar skýrsla um aflandseignir Íslendinga og hins vegar um framkvæmd Leiðréttingarinnar svokölluðu. Katrín sagði bæði málin stórpólitísk, annars vegar væri þetta málið sem varð til þess að kosningum var flýtt og hins vegar stærsta pólitíska mál síðasta kjörtímabils.
Katrín spurði einnig hvort Bjarni væri sáttur væri sáttur við þessa frammistöðu og hvort hann teldi að ekki hefði átt að gera betur.
Bjarni svaraði því ekki hvort hann skuldaði þinginu afsökunarbeiðni, en hann sagðist ekki vera í neinum ágreiningi við Katrínu um það að langbest sé að koma svörum og skýrslum hratt og örugglega inn í þingið. Hann viðurkenndi að leiðréttingarskýrslan hafi tekið of langan tíma og sagðist margoft hafa svarað því að ástæða þess að aflandsskýrslan var ekki gerð opinber fyrr hafi verið kosningarnar. Hann hafi líka viðurkennt að að hann hefði betur látið málið til þingsins fyrr.
„Því miður er það þannig og það er ekkert nýtt að það hefur ekki tekist að svara öllum fyrirspurnum,“ sagði Bjarni meðal annars og tók dæmi um tímann fyrir kosningar árið 2013, þegar Katrín var hluti af ríkisstjórn Samfylkingar og VG. 19 skriflegar fyrirspurnir hafi legið ósvaraðar fyrir kosningarnar í apríl 2013, það þætti Katrín sjálf að vita „vegna þess að hún svaraði sjálf ekki öllum fyrirspurnum.“
„Ég hefði nú haldið að hæstvirtur forsætisráðherra gæti gert aðeins betur í sínu svari hér,“ sagði Katrín þegar hún kom upp í ræðustól í annað sinn. Það hafi verið 22 aðrar fyrirspurnir ósvaraðar þegar gengið var til kosninga í haust, svo vissulega sé málum oft svona háttað. Þarna sé hins vegar að ræða um tvær skýrslur. Hún sagði að hvorki hún né Bjarni gætu nokkuð sagt til um hvort að skýrslurnar tvær hefðu haft nein áhrif á úrslit kosninganna. Það sé hins vegar grundvallaratriði í svona stórpólitískum málum að það séu gerðar kröfur um að svör séu birt strax.
Bjarni sagði í öðru svari sínu að auðvitað væri langbest að koma svörum hratt og örugglega inn í þingið. „Til dæmis fyrirspurn frá Pétri H. Blöndal frá þarsíðasta kjörtímabili, sem hann þurfti í þrígang að leggja fyrir ríkisstjórnina en fékk aldrei svar.“
Hann væri meira en til í að taka undir með Katrínu að stjórnsýslan sé sterk og vel mönnuð þannig að fyrirspurnum sé svarað sem best og hraðast.
Hann sagði leiðréttingarskýrsluna hafa tekið of langan tíma. „En gleymum því ekki að henni var skilað hingað til þingsins, ólíkt því sem sem var með skýrslubeiðni þá sem ég nefndi frá Pétri H. Blöndal, sem aldrei var skilað.“