Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir það ekki á dagskrá hjá ríkisstjórninni að setja lögbann á verkfall sjómanna, endurvekja sjómannaafsláttinn eða mæta stöðunni sem er uppi í kjaradeilu þeirra við útgerðir landsins með öðrum sértækum aðgerðum. „Þetta er einfaldlega ekki á dagskrá. Ábyrgðin er hjá samningsaðilum og þeir vita að því,“ segir Þorgerður Katrín í samtali við Kjarnann. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sagði í viðtali í Silfrinu í gær að ekki væri til umræðu að taka upp sjómannaafslátt. Þar sagði hann orðrétt: „við erum ekki að fara að tala um sjómannaafslátt að nýju.““
Samkvæmt heimildum Kjarnans er mikill þrýstingur á stjórnvöld að grípa inn í deiluna, en sjómenn hafa verið í verkfalli frá því um miðjan desember. Pólitískt kemur sá þrýstingur að mestu frá hluta þingmanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Páll Magnússon, oddviti Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi og formaður atvinnuveganefndar, sagði ynda í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun að hann vildi „ekki útiloka það að ríkið kunni að þurfa að grípa inn í þetta með einhverjum hætti og það er hægt með öðrum hætti en með lagasetningu. Stjórnvöld geta ekki látið þessa auðlind þjóðarinnar liggja óbætta hjá garði. Það er bara óraunsæi og ég veit svo sem ekki hvern menn eru að blekkja með því ef þeir eru að halda því fram að það sé hægt eða að staðhæfa það að það verði ekki undir neinum kringumstæðum gripið inn í þessa kjaradeilu.“
Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins, tók undir með Páli og sagði að það væri hægt að stíga inn í deiluna með því að nota skattkerfið til að „liðka fyrir“. Þegar Gunnar Bragi var spurður hvort hann væri að tala um sjómannaafslátt eða eitthvað slíkt, svaraði hann: „Já til dæmis eitthvað slíkt.“
Þessi skoðun kom einnig fram í viðtali við Guðmund Kristjánsson, forstjóra Brims, á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Þar sagði Guðmundur, sem stýrir einu stærsta útgerðarfyrirtæki landsins, að hann vilji að sjómenn njóti dagpeningagreiðslna en skattafrádráttur er heimill á móti slíkum greiðslum.