Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að ummæli sín um „hagsýnar húsmæður“ á Alþingi hafi verið kjánaleg og biðst afsökunar á þeim. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu ráðherrans á Facebook.
Í umræðum á Alþingi um verklag við opinber fjármál í gær sagði Benedikt: „Mér finnst áhugavert hverjir það eru sem sýna mestan áhuga á þessum umræðum, það erum við háttvirtur þingmaður Njáll Trausti Friðbertsson og hinar hagsýnu húsmæður sem eru í stórum hópum hér inni. Það er þannig að það skiptir afar miklu máli að tala um þetta.“
Hann hefur verið gagnrýndur í dag fyrir að nota orðalagið „hinar hagsýnu húsmæður“, meðal annars af Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, þingkonu Vinstri grænna. Hún gagnrýndi Benedikt í ræðustól Alþingis í dag, og spurði aðrar þingkonur hvort þeim þætti þetta í lagi.
Á Facebook í dag sagði Benedikt: „Í ræðustól Alþingis vísaði ég til þingkvenna sem hagsýnna húsmæðra. Það var tilraun til þess að gefa hnyttið andsvar við fyrri ræðu, en hún heppnaðist afleitlega. Um leið og ég heyrði mig segja þetta hugsaði ég: „Þú ert nú ekki alltaf jafn orðheppinn Benedikt.“ Þetta voru kjánaleg ummæli og ég biðst afsökunar á þeim.“
Bjarkey Olsen bregst svo við afsökunarbeiðni Benedikts á Facebook-síðu sinni, og segir ráðherrann mann að mann að meiru að biðjast afsökunar. Afsökunarbeiðnin sé góðfúslega meðtekin.