Alls segjast 22 prósent leigjenda að líklegt sé að þeir muni missa húsnæði sitt. Fjöldi þeirra sem telja líklegt að þeir missi húsnæði hefur vaxið mikið á undanförnum árum. Árið 2013 var hlutfall þeirra 14 prósent. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR á fasteignamarkaði.
Í niðurstöðum MMR kemur fram að leigjendum hafi fjölgað um fjögur prósentustig frá september 2013 til september 2016. Á sama tíma hefur skynjun leigjenda á öryggi húsnæðis síns hrakað og nú telur rúmur fimmtungur leigjenda að líklegt sé að þeir muni missa húsnæði sitt.
Yngra fólk og tekjulægri eru líklegustu samfélagshóparnir til að vera á leigumarkaði og því koma erfiðleikar á leigumarkaði mest niður á þessum hópum. Sem dæmi má nefna að 43 prósent þeirra sem voru á aldrinum 18-29 ára bjuggu í leiguhúsnæði. Alls sagðist 29 prósent í sama aldursbili búa í foreldrahúsum. Yfir helmingur íbúa á heimilum þar sem heimilistekjur voru undir 250 þúsund krónur í leiguhúsnæði, en einungis sex prósent þeirra sem bjuggu á heimilum með heimilistekjur yfir milljón krónur á mánuði bjuggu í leiguhúsnæði.
Úrtakið var 18 ára og eldri og valið var handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR. Svarfjöldi var 985 einstaklingar og könnunin var framkvæmd daganna 20. til 26. september 2016. Vikmörk eru +/-3,1 prósent.