Sjö þingmenn stjórnarandstöðunnar vilja að Alþingi fordæmi harðlega tilskipun Donalds Trump Bandaríkjaforseta, sem bannaði ríkisborgurum sjö ríkja að ferðast til Bandaríkjanna. Þingmennirnir lögðu fram þingsályktunartillögu um þetta í dag.
Þingmennirnir eru Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir og Guðjón Brjánsson, þingmenn Samfylkingarinnar, Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingkona VG og Smári McCarthy, Viktor Orri Valgarðsson og Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmenn Pírata.
Hinn 27. janúar síðastliðinn gaf forseti Bandaríkjanna út tilskipun þess efnis að fólki frá sjö ríkjum, Sýrlandi, Írak, Íran, Jemen, Lýbíu, Sómalíu og Súdan, væri óheimilt að koma inn í landið. Tilskipunin var felld úr gildi eftir að alríkisdómstóll í Washingtonríki dæmdi gegn henni, en málið er í áfrýjunarferli.
„Tilskipunin er fordæmalaus og lýsir mannfyrirlitningu, byggist á fordómum og grefur undan mannréttindum og þeim lýðræðislegu gildum sem almennt eru viðurkennd í vestrænum lýðræðisríkjum. Þá er hún fremur fallin til að kynda undir ófriði en tryggja öryggi. Zeid bin Ra'ad Zeid al-Hussein, yfirmaður mannréttindamála hjá Sameinuðu þjóðunum, hefur sagt aðgerðina ólöglega og setta fram af illum hug. Með henni fari að auki fjármunir í vaskinn sem ella gætu nýst í baráttu gegn hryðjuverkum,“ segir í greinargerðinni með þingsályktunartillögunni.