Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra segir að ekki sé hægt að fullyrða nokkuð um að það fyrirfinnist kynbundið misrétti á launamarkaði. Þetta kemur fram í grein hennar í nýútkomnu árshátíðarriti Orators, félags laganema við Háskóla Íslands.
„Það er rétt að karlar afla almennt meiri tekna en það skýrist af meiri vinnu þeirra utan heimilis. Vafalaust er ástæðan meðal annars sú að konur eiga enn fleiri dýrmætar stundir með börnum sínum en karlar. Hvernig fólk kýs að haga þeim málum hverju sinni er eitthvað sem foreldrar ákveða innan fjölskyldunnar og sú ákvörðun á skilið fulla virðingu,“ skrifar ráðherrann meðal annars.
Hún segir ýmsa þætti til staðar sem ekki sé hægt að mæla í launakönnunum, huglæga og ómælanlega þætti.
„Það má því segja að þótt kannanir mæli enn um 5% „kynbundinn“ launamun þá er hann of lítill til að hægt sé að fullyrða nokkuð um kynbundið misrétti á launamarkaði. Til þess eru kannanirnar of takmarkaðar ásamt því að mannleg samskipti verða aldrei felld að fullu í töflureikni. Þær munu því seint geta metið hina huglægu þætti sem skipta svo miklu máli í sambandi vinnuveitenda og starfsmanns.“
Þá vitnar Sigríður í skýrsluna Launamunur karla og kvenna, sem velferðarráðuneytið lét vinna árið 2015, þar sem kemur fram að ekki sé með vissu hægt að álykta að sá óútskýrði launamunur sem mælist sé eingöngu vegna kynferðis. „Það leikur ekki nokkur vafi á því að þrýstingur á opinberar aðgerðir í jafnréttismálum, til dæmis kynjakvóta og jafnlaunavottanir, myndi minnka ef þessu væru gerð betri skil í opinberri umræðu,“ segir ráðherrann um það.
Umrædd jafnlaunavottun er eitt af þeim frumvörpum sem eru á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir vorþing. Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, hyggst leggja málið fram á Alþingi í mars næstkomandi, en málið var eitt stærsta kosningamál Viðreisnar.