Bjarni Benediktsson forsætisráðherra er búinn að skipa sérfræðinganefnd sem á að undirbúa löggjöf um stofnun stöðugleikasjóðs sem heldur utan um arð af orkuauðlindum ríkisins. Þetta kom fram í ræðu hans á Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs Íslands nú síðdegis.
„Grunnhugsunin hér er sú að við komum á fót stöðugleikasjóð sem haldi utan um arð af orkuauðlindum í eigu ríkissjóðs og tryggi komandi kynslóðum hlutdeild í ávinningi af sameiginlegum auðlindum um leið og hann getur verið sveiflujafnandi fyrir efnahagslífið,“ sagði Bjarni, en þetta er ekki í fyrsta sinn sem hann ræðir sjóð af þessu tagi. Það gerði hann í fyrsta skipti á síðasta kjörtímabili, á ársfundi Landsvirkjunar. Þá er kveðið á um stofnun stöðugleikasjóðs í stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokksins, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar.
Fyrsta skrefið í stofnun sjóðsins er skipun sérfræðinganefndarinnar, og hún kemur saman núna fyrir helgi að sögn Bjarna. Nefndina munu skipa Ingimundur Friðriksson, fyrrverandi seðlabankastjóri, Kristín Haraldsdóttir, lögfræðingur, sérfræðingur í auðlindarétti og fyrrverandi aðstoðarmaður Ólafar Nordal í innanríkisráðuneytinu, og Erlendur Magnússon fjárfestir.
„Þessi sérfræðingahópur mun starfa mjög náið þverpólitískt, sem er gríðarlega mikilvægt, vegna þess að það er ekkert vit og það er enginn ávinningur í því að koma á fót sjóði sem hugsaður er til langrar framtíðar ef það er ekki þverpólitískur stuðningur við það og það eru líkur til þess að honum verði breytt við næstu kosningar og svo framvegis. En góðu fréttirnar eru þær að ég finn fyrir mjög góðum þverpólitískum stuðningi við þessa hugmynd sem að við erum að leggja grunn að núna og ætlum að hrinda í framkvæmd á kjörtímabilinu,“ sagði Bjarni.