Stuðningur við ríkisstjórnina mælist 32,6% í nýrri könnun MMR á fylgi við stjórnmálaflokkana. Það er minni stuðningur en í síðustu könnun MMR í janúar, en þá mældist stuðningurinn 35 prósent. Engin ríkisstjórn hafði komist nærri því að mælast með svo lítinn stuðning í sinni fyrstu mælingu síðustu 20 ár að minnsta kosti.
Vinstri græn mælast stærsti flokkur landsins, með 27 prósent fylgi. Það er 3,8 prósentustiga aukning frá meðalfylgi flokksins í janúar síðastliðnum, sem var 23,2 prósent.
Sjálfstæðisflokkurinn er annar stærsti flokkurinn samkvæmt könnuninni, og mælist með 23,8 prósenta fylgi. Það er minnkun um 0,8 prósentustig frá síðustu mælingu.
Píratar mælast með 13,6 prósent, sem er sama fylgi og í síðustu könnun. Framsóknarflokkurinn mælist með 9,7 prósent nú en mældist með 12,5 prósent í síðustu könnun, og Samfylkingin mælist með 7,8 prósent en mældist með 7 prósent síðast.. Ríkisstjórnarflokkarnir Viðreisn og Björt framtíð mælast með 5,6 prósent og 5,3 prósent fylgi, en í síðustu könnun var fylgið 6,8 og 7 prósent.
Flokkur fólksins mælist með 3,6 prósent en aðrir flokkar innan við tvö prósent.
Könnunin var gerð dagana 1. til 5. febrúar. 983 einstaklingar átján ára og eldri svöruðu könnuninni.