Langstærstur hluti viðskipta með íbúðahúsnæði á höfuðborgarsvæðinu á sér stað milli einstaklinga. Ekki hafa orðið gríðarlegar hlutfallslegar breytingar þar á frá því fyrir hrun. Þetta má sjá í tölum sem Þjóðskrá Íslands hefur tekið saman um skiptingu viðskipta með íbúðarhúsnæði.
Í tölunum er hægt að sjá viðskipti með íbúðarhúsnæði eftir ársfjórðungum aftur til ársins 2006. Líkt og sést á myndinni hér að neðan er hlutfall viðskipta á milli einstaklinga, það er þegar einstaklingur selur einstaklingi, langhæst. Iðulega eru um 3 af hverjum 4 viðskiptum milli einstaklinga. Næst koma fyrirtæki sem selja einstaklingum íbúðahúsnæði, en það er oft í kringum 15-20 prósent af viðskiptum í hverjum ársfjórðungi.
Undanfarin ár hefur hlutfall einstaklinga sem selja fyrirtækjum íbúðahúsnæði verið í kringum 5-7 prósent. Það hlutfall hækkaði strax í hruninu, og fór upp í 12 prósent í lok árs 2008 og var í kringum tíu prósent fyrri hluta ársins 2009.
Önnur staða miðsvæðis
Myndin er aðeins öðruvísi þegar horft er til Reykjavíkur vestan Kringlumýrarbrautar. Engu að síður er það svo að langflest viðskipti eiga sér stað á milli einstaklinga, þrátt fyrir að hlutfallið hafi lækkað síðustu ár. Undanfarin tvö ár hefur hlutfall viðskipta milli einstaklinga verið á bilinu 71 til 81 prósent.
Hlutfall fyrirtækja sem kaupa íbúðahúsnæði af einstaklingum hefur aukist talsvert á þessu svæði á undanförnum árum. Árið 2011 voru slík viðskipti innan við fimm prósent af heildarfjöldanum, en þau jukust svo mjög skarpt á seinni hluta ársins 2012, og voru komin í 14 prósent í lok þess árs. Í fyrra voru fasteignaviðskipti þar sem fyrirtæki keyptu af einstaklingum í kringum 13 prósent. Það er því talsvert meira um að fyrirtæki kaupi íbúðahúsnæði af einstaklingum miðsvæðis í Reykjavík heldur en á höfuðborgarsvæðinu í heild.