Gögn benda til þess að framleiðsla og útflutningur á ferskum bolfiskafurðum hafi dregist saman um 40 til 55 prósent á þeim tíma sem verkfall sjómanna hefur staðið, fram til dagsins í dag. Útflutningstekjur hafa minnkað um 3,5 til 5 milljarða króna á þessum tíma, og að nokkru leyti er þetta tap sem verður ekki bætt með nýtingu kvóta seinna. Í ferskfiskframleiðslu eru mestar áhyggjur af mörkuðum fyrir íslenskar afurðir, og hættunni á því að missa hluta markaðarins annað.
Þetta kemur fram í mati á þjóðhagslegum kostnaði verkfalls sjómanna, sem unnin var fyrir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Settur var saman vinnuhópur sjö fulltrúa frá fjármálaráðuneytinu, innanríkisráðuneytinu, velferðarráðuneytinu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Starfsmenn Íslenska sjávarklasans voru fengnir til liðs við vinnuhópinn og þeir báru hitann og þungann af vinnunni við matið.
Standi verkfallið fram á loðnuvertíðina og veiðar falla niður mun þjóðarbúið verða af tekjum sem líklega verða taldar í þúsundum milljóna króna, kemur einnig fram í matinu.
Efnahagsleg áhrif af verkfalli sjómanna eru mjög víðtæk og snerta fjárhagslega hagsmuni fjölmargra fyrirtækja, kjör ýmissa stétta og fjármál hins opinbera bæði til lengri og skemmri tíma. Ef starfsemi í sjávarútvegi, sem er grunnatvinnuvegur á Íslandi, dregst saman til lengri tíma hefur það keðjuverkandi áhrif í efnahagslífinu.
Tekið er fram í matinu að það sé vandkvæðum bundið að meta kostnað þjóðfélagsins af verkföllum, ekki síst við þessar aðstæður, þar sem nýtingu auðlindar er slegið á frest en hún verði að nokkru eða miklu leyti nýtt síðar. Þá mun hún skila tekjum og „leiðrétta“ að einhverju leyti fyrir tekjumissinum sem á sér stað á meðan verkfallið varir. Þrátt fyrir að matið miði við að um tafir séu að ræða fyrst og fremst fari því fjarri að allt tap og beinn kostnaður sé eitthvað sem vinna megi upp síðar. Þetta eigi almennt síður við eftir því sem lengra líður í verkfallinu, og þá sé ýmisskonar vaxtakostnaður sem sé að líkindum óafturkræfur.
„Eftir átta vikur af verkfalli er víða komið að þessum mörkum og sumt tekjutap launafólks,
ýmissa fyrirtækja og opinbera aðila er orðið óafturkræft. Við það tap bætist svo ýmiskonar
vaxtakostnaður sem hlýst af því að slá verkum á frest (fresta nýtingu aflaheimilda) og
vannýta framleiðsluþætti á meðan. Þessi vaxtakostnaður birtist víða strax og er í mörgum
tilvikum óafturkræfur. Vaxtakostnaður er fólginn í minni tekjum í dag, þ.e. greiðslur berast
síðar. Þá getur hann birst í lægri afurðaverðum þegar framleiðsla hefst að nýju, auknum
kostnaði nær allra í virðiskeðjunni við að framleiða aukið magn á skemmri tíma síðar og við
að vinna til baka markaði og hillupláss, skertri getu til að ráðstafa hráefni í verðmeiri
afurðaflokka þegar framleiðsla hefst að nýju og svona mætti lengi telja í flóknum
virðiskeðjum ólíkra sjávarafurða,“ segir í skýrslunni.
Fiskverkafólk tapar
Fram kemur í matinu að heildaráhrifin á ráðstöfunartekjur sjómanna séu talin nema um 3,5 milljörðum króna, en að mestu eða öllu leyti sé um að ræða tekjur sem geta skilað sér við nýtingu á aflaheimildunum síðar. Það er hins vegar ekki hægt að segja um áhrifin á ráðstöfunartekjur starfsfólks í fiskvinslu, en að minnsta kosti 2.400 til 2.600 starfsmenn í fiskvinnslu hafa orðið fyrir tekjuskerðingu vegna sjómannaverkfallsins. Tekjutap þess hóps er talið 818 milljónir króna til dagsins í dag. „Hér er um að ræða beint tekjutap sem fallið hefur á hóp launþega sem ekki á möguleika á að fá hann bættan með nýtingu aflaheimildanna síðar nema ef til vill að mjög takmörkuðu leyti.“
Gróflega áætlað tekjutap ríkissjóðs af verkfallinu er metið um 2,5 milljarðar króna, vegna minni skatttekna. Stærstur hluti er vegna launa sjómanna, rúmlega 2,1 milljarður króna, og það er talið að mestu leyti afturkræft. Sömu sögu er að segja af tekjutapi sveitarfélaga, sem er talið um milljarður króna. 833 milljónir af því er vegna launa sjómanna, og er metið að einhverju eða miklu leyti afturkræft.
Ólík áhrif á sjávarútvegsfyrirtækin
Stærð, eðli starfsemi og framleiðslu, útgerðarmynstur, birgðastaða í upphafi verkfalls, skuldastaða, hlutfalls fasts kostnaðar og ýmislegt fleira hefur áhrif á það hvernig verkfallið leggst mismunandi á sjávarútvegsfyrirtæki landsins. Geta fyrirtækjanna til að takast á við vandamálin við framleiðslustöðvun til skamms og meðallangs tíma er mjög misjöfn.
Þá er fjallað um verðmætasköpun í fiskveiðum og vinnslu í skýrslunni, en samkvæmt þjóðhagsreikningum var verðmætasköpunin á bilinu 140 - 170 milljarðar króna árlega frá árinu 2008 á föstu verðlagi, sem samsvarar um 380 - 460 milljónum króna á dag að meðaltali. Að viðbættum óbeinum efnahagslegum áhrifum má áætla að verðmætasköpun sjávarútvegs og tengdra greina hafi numið 350 - 425 milljörðum króna árlega frá 2008, sem samsvarar 960 - 1160 milljónum króna á dag að meðaltali.
„Ekki er þó hægt að halda því fram að þjóðhagslegt tap af völdum verkfallsins hafi numið 960-1160 milljónum króna á hverjum verkfallsdegi hingað til, en bent er á að rannsóknir gefi það til kynna að við algjört og langvarandi vinnslustopp nálgist hið þjóðhagslega tap á degi hverjum þessar upphæðir. Vinnustoppið nú er hvorki algjört né langvarandi, en er engu að síður mjög víðtækt og hefur dregist á langinn þannig að áhrifa þess gætir nú talsvert víðar í hagkerfinu en á fyrstu vikum verkfallsins,“ segir í niðurstöðum matsins.