Vegna vaxandi fjölda erlendra ferðamanna þarf að uppfæra ýmsar viðbragðsáætlanir vegna hugsanlegra náttúruhamfara, og viðbúið er að rýmingar í næsta nágrenni myndu ná til tugþúsunda. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Mikil fjölgun í umferð ferðamanna um Suðurland á stuttum tíma er það sem gerir fyrri rýmingaráætlanir úreltar. Þetta er meðal niðurstaðna fundar undirbúningshóps viðbragðsaðila, þar á meðal Almannavarna, sem kom saman á fimmtudag. „Ef Katla gysi á þessu ári gæti þurft að koma þúsundum ferðamanna burt af hættusvæðum en ekki þarf að fara mörg ár aftur í tímann til að finna viðbragðsáætlanir sem gerðu ráð fyrir rýmingu tiltölulega fámenns hóps íbúa og að erlendir ferðamenn heimsóttu Suðurland aðeins á sumrin,“ segir í tilkynningu undirbúningshópsins.
Víðir Reynisson, verkefnisstjóri Almannavarna á Suðurlandi, segir við Fréttablaðið að mikilvægt sé að kortleggja vel öll atriði sem þarf að huga að ef til rýmingar þarf að koma, og umfangið sé mikið, enda séu um þrjú þúsund manns búsettir á rýmingarsvæðum Kötlu en á góðum sumardegi fjór- til fimmfaldist sú tala vegna umferðar ferðamanna.
Til eru samtímaheimildir um ein níu Kötlugos, frá 1580 að telja, sum stór eins og það síðasta sem kom upp úr jökli árið 1918, eða 99 árum.
Jökulhlaupin eru
gríðarstór, um 100-falt vatnsmeiri en
úr Eyjafjallajökli 2010 og að minnsta
kosti fjórum til fimm sinnum öflugri
en vatnsflóðin á Skeiðarársandi
1996, eftir eldgosið í Gjálp, að því er segir í Fréttablaðinu.