„Gjörið svo vel, viljið þið elsku vinir fara að semja. Ég er ekki að fara að setja lög á sjómannadeiluna,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í Silfrinu á RÚV í morgun.
Þorgerður Katrín segir ekki koma til greina að stjórnvöld komi að lausn sjómannadeilunnar með sértækum hætti eins og dagpeningum. Hins vegar muni stjórnvöld fara yfir möguleikana á því að liðka fyrir með almennum hætti. Hún vill einnig að farið verði í endurskoðun á skattkerfinu almennt. „Nú erum við í einstöku tækifæri til þess að gera skattkerfið einfaldara, við eigum að einfalda skattkerfið, ekki flækja það.“ Hún segir að krafan um það að sjómann fái dagpeninga byggist á fordæmi frá flugliðum og flugmönnum, en það sé ekki heppilegt dæmi.
Hún sagði að það yrði að vera ljóst að það sé nú verið að krefjast þess með beinum hætti að ríkið komi að því að styrkja sjávarútveginn með kröfum um skattfrjálsa dagpeninga. Þetta telur Þorgerður Katrín verða að setja í samhengi við þá kröfu og umræðu fyrir kosningar að sjávarútvegurinn eigi að greiða sanngjarnt og aukið afgjald fyrir notkun á fiskveiðiauðlindinni.
Hún segir að ef ríkið eigi að koma að deilunni þá vilji hún miklu frekar skoða að gera það í gegnum almennar aðgerðir. Hún vilji frekar að fjármagn fari beint í bæjarfélögin sem verst verða úti í verkfallinu heldur en að það fari í niðurgreiðslur.