„Ég get staðfest það að menn eru farnir að tala um að við verðum að fara að reyna að finna einhverja leið út úr þessu sem yrði með öðrum formerkjum en hingað til, en ég má ekki segja frá því hver sú leið er,“ segir Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambandsins, viðtal við Morgunblaðið í dag.
Þar kemur fram að viðsemjendur líti svo áð nú sé komin upp ögurstund í deilu sjómanna og útgerðarmanna, en verkfall hefur staðið frá 14. desember með tilheyrandi tjóni fyrir íslenska hagkerfið.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, lét hafa eftir sér í Silfrinu á RÚV í gær, að hún vonaðist til þess að samið yrði sem allra fyrst. „Gjörið svo vel, viljið þið elsku vinir fara að semja. Ég er ekki að fara að setja lög á sjómannadeiluna,“ sagði Þorgerður Katrín.
Gauti Jóhannesson, formaður samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, sagði í aðsendri grein á vef Kjarnans að ekki væri í boði fyrir stjórnvöld að sitja lengur hjá. Tjónið væri mikið og það þyrfti að höggva á hnútinn.
Að sögn Valmundar munu aðilar í samtökum innan Sjómannasambandsins hittast á fundi í dag, að því er fram kemur í Morgunblaðinu.
Í Bretlandi hafa menn vaxandi áhyggjur af áhrifum verkfallsins hér á landi og skorti á ferskri ýsu og þorski, sem þangað er fluttur inn frá Íslandi. Hefur hann leitt til uppsagna starfsfólks fiskmarkaðarins í Grimsby og viðbúið að verð hækki, segir í Morgunblaðinu.