Vísitala hlutabréfamarkaðarins hækkaði um 0,88 prósent í dag og hækkuðu flest félög á bilinu 2 til 4 prósent nema Icelandair Group en gengi bréfa þess lækkaði um 0,47 prósent.
Mesta hækkunin varð á bréfum HB Granda, 4,48 prósent og N1, ríflega fjögur prósent. Fjarskiptafyrirtækin Síminn og Vodafone hækkuðu mikið. Síminn um 3,98 prósent og Vodafone um 3,64 prósent. Gengi bréfa Vodafone hefur hækkað um meira en 20 prósent á tveimur mánuðum.
Tryggingarfélögin VÍS, Sjóvá og TM hækkuðu einnig mikið. VÍS um 3,72 prósent, Sjóvá 3,53 og TM um 2,35 prósent.
Eftir mikið verðhrun á Icelandair Group, sem dró vísitölu markaðarins niður, þá hafa félög á markaði hækkað skarpt síðustu viðskiptadaga.
Langsamlega verðmætasta félagið á markaðnum er Marel en það er nú ríflega 220 milljarða króna virði, en næst kemur Össur sem er 175 milljarða króna virði um þessar mundir.
Icelandair er nú 79 milljarða króna virði en um mitt ár í fyrra var það 189 milljarða virði. Þessi mikla lækkun hefur komið illa við stærsta innlenda hlutabréfasjóð landsins, Stefni ÍS 15, en ríflega fjórðung eigna sjóðsins er bundinn í bréfum Icelandair. Sjóðurinn er upp 36,8 milljarða að stærð og hefur ávöxtun hans verið um 10,6 prósent á undanförnu ári.
Gengi krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum styrktist í dag. Evran kostar nú 119 krónur og Bandaríkjadalur 113 krónur.