Vinstri græn, Samfylkingin og Píratar vilja öll fá að sjá og lesa frumvarp um jafnlaunavottun áður en flokkarnir taka afstöðu til þess hvort þeir munu styðja frumvarpið. Þetta kemur fram í svörum þingflokksformanna þeirra, Svandísar Svavarsdóttur, Oddnýjar Harðardóttur og Ástu Guðrúnar Helgadóttur, við fyrirspurn Kjarnans um málið. Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, segir flokkinn flokk jafnréttis en málið hafi ekki verið formlega rætt á þingflokksfundi.
Frumvarp um jafnlaunavottun er í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir vorþingið og kveðið er á um það í stjórnarsáttmála. Hins vegar hafa tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Óli Björn Kárason og Brynjar Níelsson, lýst því yfir að þeir muni ekki styðja frumvarpið. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hefur aðeins eins þingmanns meirihluta og ef Óli Björn og Brynjar standa við það að styðja ekki frumvarpið þarf því stjórnarandstaðan að sitja hjá eða greiða atkvæði með frumvarpinu svo það nái fram að ganga.
Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, hefur sagt að hann hafi ekki áhyggjur af því að málið nái ekki fram að ganga. „Ég hef engar áhyggjur af því. Það er skýrt kveðið á um þetta í stjórnarsáttmála. Auðvitað ber þá þingflokkur sjálfstæðismanna ábyrgð á stuðningi sínum við stjórnarfrumvörp. Það verða menn bara að ræða heimafyrir í þeim efnum. En það er líka ljóst að málið nýtur stuðnings á þingi langt út fyrir stjórnarflokkana. Við munum að sjálfsögðu halda ótrauð áfram með undirbúning málsins og leggja það fram á þingi í vor,“ sagði Þorsteinn við mbl.is í dag.
Hann hvatti Brynjar og Óla Björn til að kynna sér málið betur, sem og væntanlegt frumvarp þegar það kemur fram. „Það er bara í takt við vönduð vinnubrögð að móta skoðanir sínar á grundvelli málefnanna þegar þau eru komin fram fullmótuð en ekki á getgátum um það hvernig þau munu mögulega líta út.“
Það hyggjast stjórnarandstöðuflokkarnir VG, Píratar og Samfylkingin gera.
Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður VG, segir við Kjarnann að flokkurinn þurfi að sjá frumvarpið til að geta tekið afstöðu til þess. Sömu sögu sagði Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, sem vill lesa frumvarpið áður en hún tekur afstöðu. „En ég tel almennt nauðsynlegt að stjórnvöld beiti sér gegn kynbundnum launamun.“
Ásta Guðrún Helgadóttir, þingflokksformaður Pírata, segir að engin ákvörðun hafi verið tekin um það hvernig atkvæði verði greidd, enda hafi málið ekki verið rætt í þingflokknum. „Mér finnst þetta alveg áhugaverð hugmynd en það fer svolítið eftir útfærslunni hvort ég muni styðja frumvarpið sem slíkt.“