Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur ætlar að fara yfir „alla ferla, samskipti og vitneskju sem lúta að ráðgjöf Hafró um aukinn loðnukvóta“ að því er segir í formlegu svari við fyrirspurn Kjarnans um hvenær vitneskja spurðist út um það að loðnukvótinn yrði sextánfaldaður.
Eins og greint var frá að vef Kjarnans í gær þá hafa hlutabréf í HB Granda hækkað töluvert síðustu daga og rauk gengi bréfa félagsins upp eftir 8. febrúar síðastliðinn. Þá var gengi bréfa félagsins rúmlega 25 en á fjórum viðskiptadögum hækkaði það um 22,5 prósent. Sjómannaverkfall hefur staðið hefur yfir frá 14. desember með neikvæðum afleiðingum fyrir útgerðarfélög og sjávarútveginn í heild.
Kvótinn var aukinn í alls 196.075 þúsund tonn á þessari vertíð. Áætlað heildarverðmæti loðnuaflans er um 17 milljarðar króna.
Veltan í þessum viðskiptum var rúmlega 570 milljónir, en í dag, eftir að tilkynningin um sextánföldun á loðnukvótanum kom, hækkuðu bréfin um 4,13 prósent í viðskiptum upp á 410 milljónir. Ekki liggur fyrir hvaða fjárfestar voru að kaupa bréf á þessum fyrrnefnda tíma.
Samkvæmt heimilum Kjarnans var mikið rætt um þessi viðskipti á fjármálamarkaði, ekki síst þar sem hækkunin virtist á skjön við ytra rekstrarumhverfi HB Granda og annarra sjávarútvegsfyrirtækja enda hefur sjómannaverkfall, sem staðið hefur frá 14. desember, reynst sjávarútvegnum erfitt og miklar tekjur tapast.
Fyrirspurn Kjarnans til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins var eftirfarandi, og svörin sömuleiðis.
Spurning blaðamanns: Hvenær voru upplýsingar um aukningu loðnukvótans fyrst kynntar ráðherra og ráðamönnum? Hverjir fengu kynningu á þessu, og hvenær, nákvæmlega?
Svar: Tímalínan er eftirfarandi:
- Tvö skip í loðnuleit 3. – 11. feb. – Í fjölmiðlum hafa verið viðtöl við skipverja þar sem að sagt er frá því að fundist hafi mikið af loðnu (t.d. frétt í Fiskifréttum). Almenn skilaboð í fjölmiðlum komin um að búast megi við töluverðri hækkun á ráðgjöf
- Mánudag 13. feb. – Tölvupóstur frá skrifstofustjóra skrifstofu sjávarútvegs og fiskeldis til ráðherra þar sem segir að búast megi við nýrri ráðgjöf um aukinn kvóta frá Hafró daginn eftir. Ákveðið að hlíta ráðgjöf Hafró hver svo sem hún yrði og koma tilkynningu þess efnis eins hratt út og kostur er.
- Skrifstofustjóri hringir í ráðherra 14. feb. Kl. 10:56 og gerir grein fyrir ráðgjöf Hafró. Ráðherra ítrekar að ráðgjöf Hafró skuli fylgt og það skuli kunngera þá ákvörðun strax og Hafró hefur sent frá sér tilkynningu um nýja ráðgjöf.
- Fréttatilkynning frá Hafró 14. feb. kl. 11:38
- Fréttatilkynning frá ANR 14. feb. 11:49
„Í ljósi frétta mun ráðuneytið fara yfir alla ferla, samskipti og vitneskju sem lúta að ráðgjöf Hafró um aukinn loðnukvóta,“ segir í svari ráðuneytisins.